136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:31]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég spurði áðan mjög skýrrar og afmarkaðrar spurningar. Ég spurði hvort það mál sem nú er á dagskrá yrði klárað og fundi síðan slitið. Virðulegur forseti gat ekki svarað því með ótvíræðum hætti þannig að eftir þessa umræðu um fundarstjórn forseta liggur það ekki fyrir með hvaða hætti málum verður haldið áfram. Það er enn í fullkominni óvissu.

Málið sem er þar á eftir á dagskrá eru stjórnarskipunarlög og engin lög eru æðri og mikilvægari en stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðin á rétt á því að um þau sé ekki rætt á næturfundum heldur þegar þjóðin getur fylgst með umræðum. Við erum að ræða helgustu og mikilvægustu lög samfélagsins, lög sem marka umgjörð um alla okkar stjórnsýslu (Forseti hringir.) og stjórnskipan. Við hljótum að spyrja (Forseti hringir.) hvort það sé virkilega ætlun hæstv. forseta að hefja (Forseti hringir.) umræðu um stjórnarskipunarlög um hánótt.