136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:37]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Hér hefur farið fram mikil umræða um ýmis mál, kvóta og fleira, en ég ætla að halda mig við frumvarpið. Ég ætla að byrja á því að fara yfir það sem gerðist í efnahags- og skattanefnd í morgun, menn höfðu ætlað sér að fara af alvöru í gegnum þá tillögu sem ég kom fram með og frestaði til 3. umr. En það gerðist ekki vegna þess að engir gestir voru fengnir til að ræða hana, engin álit voru fengin, hún er í rauninni órædd og mér finnst það mjög miður.

Í framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði samþykkt með áorðnum breytingum sem hann lagði til við 2. umræðu málsins. Meiri hlutinn telur það jafnframt koma til greina að endurskoða fyrirkomulag útgreiðslu að fenginni reynslu og með hliðsjón af öðrum úrræðum til lausnar greiðsluvanda einstaklinga og heimila. Mælist nefndin til þess að fjármálaráðuneytið skoði breytingartillögu minni hlutans í þessu ljósi og meti þörfina á frekari úrræðum á síðari stigum.“

Ýmislegt er við þetta að athuga. Í fyrsta lagi skorar nefndin á framkvæmdarvaldið að gera tillögur að breytingu á lagasetningu. Hún heykist á því sjálf að leggja fram breytingar á lögum, hún heykist á því hlutverki Alþingis að semja lög og felur það framkvæmdarvaldinu.

Í öðru lagi fer hún ekkert eftir því sem aðilar höfðu ítrekað varað við, þ.e. að margir vörsluaðilar lífeyrissparnaðar mundu ekki ráða við þessar tillögur ríkisstjórnarinnar. Þeir mundu ekki ráða við þessar útgreiðslur jafnvel þó að þeim yrði dreift á 10 mánuði. Nægir þar að nefna nokkrar umsagnir, t.d. frá Fjármálaeftirlitinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið vill taka fram að það telur að sú hugmynd að greiða út séreignarsparnað landsmanna á svo skömmum tíma sem frumvarpið gerir ráð fyrir geti falið í sér ákveðna hættu fyrir þennan hluta af lífeyriskerfi landsmanna.“ — Það bendir jafnframt á það að vörsluaðilum sé heimilt að fresta útgreiðslu séreignarsparnaðar.

Í umsögninni segir einnig, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið telur að við þessar aðstæður sé afar mikilvægt að gætt sé jafnræðis milli þeirra rétthafa séreignarsparnaðar sem kjósa að nýta þann rétt sem frumvarpið býður upp á og hinna sem kjósa frekar að vista séreignarsparnað sinn áfram hjá sama vörsluaðila. Því er ákvæðið um frestun á útgreiðslu séreignarsparnaðar „mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda séreignarsparnaðar krefjist“ afar mikilvægt til að tryggja þetta jafnræði.“

Þeir gleyma því að ef mikil ásókn verður í þessar útgreiðslur verður að stöðva þær og þá myndast óskaplegt ójafnræði milli þeirra sem voru framar í röðinni og fá sinn sparnað útgreiddan og hinna sem voru aftar í röðinni, voru kannski ekki eins kvikk og ekki eins upplýstir, ekki eins vel inni í málunum, fylgdust ekki eins vel með. Það er alltaf það sama, þeir sem eru klókir, upplýstir og menntaðir fá forgang, þeir geta tekið þetta út strax en hinir sem eru aftar í röðinni fá ekki. Ég bendi á þetta sem alvöruhættu. Það sem meira er, þegar fólk áttar sig á þessu — ég þori varla að segja það — munu menn að sjálfsögðu drífa sig í að taka út til að lenda ekki aftarlega á merinni, til að verða ekki skornir af, þeir síðustu. Ég sé í þessu raunverulega hættu, herra forseti, og sérstaklega þegar maður les umsögnina frá Fjármálaeftirlitinu, og þetta kom fram í fleiri umsögnum.

Ég má til með, herra forseti, að lesa umsögn frá Seðlabankanum sem er undirrituð af Svein Harald Øygard, hann er Norðmaður, skilst mér. Sú umsögn hefur heldur ekki verið rædd, þannig að ég set fram nýjar upplýsingar, sýnist mér. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráða má af frumvarpinu að markmið þess séu í reynd tvíþætt: Að koma til móts við stöðu skuldara og búa í haginn fyrir efnahagshvata.“ (Gripið fram í: … góð íslenska …) Já, hann er góður í íslensku, það er alveg ótrúlegt. — „Að opna fyrir almennar útgreiðslur til allra eigenda séreignarsparnaðar, óháð einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra, skapar hins vegar hættu á meiri eftirspurn eftir útgreiðslum en vörsluhafar geta í raun annað.“

Ef þetta eru ekki viðvörunarorð frá hinum nýja seðlabankastjóra og frá Arnóri Sighvatssyni aðstoðarseðlabankastjóra — báðir skipaðir af hæstv. forsætisráðherra ásamt allri annarri stjórn Seðlabankans. Þetta er nefnilega forsætisráðherraseðlabanki, framkvæmdarvaldið skipar þetta vald til margra ára. Ef þetta eru ekki viðvörunarorð, sem við verðum að taka alvarlega í þessari umræðu, þá líst mér illa á því að ég tek mark á þessum mönnum. Í umsögninni segir áfram, með leyfi forseta:

„Þótt vörsluhafar hafi sem fyrr heimild til þess að fresta útgjöldum þá mundi eftirspurn umfram getu vörsluhafa til að greiða út sparnað auka líkur á því að þeir neyti þeirrar heimildar. Því yrði minna umleikis fyrir þá sem þurfa á því að halda að taka út séreignarsparnað sinn vegna fjárhagslegra erfiðleika. Ef annað meginmarkmið laganna er að skapa ný félagsleg úrræði fyrir þá sem eru verst staddir fjárhagslega til skemmri tíma vegna nýlegra efnahagsáfalla er hætt við að þau markmið náist ekki ef allir eiga sama rétt til takmarkaðrar útgreiðslu, óháð aðstæðum og mati á þörf.“

Herra forseti. Er þetta ekki eitthvað sem við verðum að taka alvarlega? Ég veit ekki til þess að þetta hafi komið fram í umræðunni enn þá og hef ég þó fylgst vel með henni. Hér talar hin nýja stjórn Seðlabankans sem mér skilst að eigi að bjarga öllum málum og hafa vit á öllu og greinilega hefur hún mjög ákveðna skoðun á þessu máli.

Síðan segir Seðlabankinn, og það er svo sem jákvætt:

„Í afar þröngri stöðu ríkissjóðs er ljóst að lagabreyting þessi auðveldar stjórnvöldum að ná þeim markmiðum um aðhald og sjálfbæra þróun ríkisfjármála sem sett eru fram í efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lúta að því að verja afkomu ríkissjóðs á þessu ári og bæta á því næsta. Ef allt það fé sem losnar til útborgunar er greitt út geta beinar skatttekjur hins opinbera aukist um allt að 34 milljarða kr. og ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 55 milljarða kr.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir í þessu að 89 milljarðar streymi út og þar af fari 34 til ríkisins. Það er sem sagt greinilegt að það er ríkið sem á að njóta þessa en ekki fólkið sem er að missa húsin sín eða íbúðirnar sínar. Þetta var sem sagt um Seðlabankann hinn nýja.

Viðskiptaráð segir:

„Ein ástæða að baki þessari afstöðu ráðsins [þ.e. að vara við þessu] er sú að lífeyrissparnaður er lögvarinn og því meðal fárra eigna einstaklinga sem ekki er hægt að ganga á við gjaldþrot. Ef einstaklingur gengur þannig á lífeyrissparnað sinn, sem af einhverjum ástæðum dugar ekki til að forða honum frá gjaldþroti, er hann í raun verr staddur en annars væri.“

Í breytingartillögu minni er einmitt tekið á þessu en ekki í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem að öllu óbreyttu verður að lögum á morgun. Menn geta lent í því að taka út sína milljón, hjón 2 millj., en þau verða gjaldþrota engu að síður því að að sjálfsögðu duga 2 millj. ekki neitt. Þau verða gjaldþrota engu að síður og þá eru þessar 2 millj. tapaðar. Þær verða undir í gjaldþrotinu en ekki séreignarsparnaðurinn. Hann er nefnilega verndaður fyrir slíku.

Síðan segir Viðskiptaráð:

„Viðskiptaráð leggur til að kveðið verði á um að vörsluaðili skuli nota úttekt til niðurgreiðslu skulda rétthafa eftir því sem rétthafi ákveður.“

Þeir vilja því þrengja skilyrðin verulega einmitt til þess að koma í veg fyrir þetta áhlaup sem m.a. hinn nýi Seðlabanki bendir á.

Landssamtök lífeyrissjóða benda líka á að viðbúið er, ef frumvarpið nær fram að ganga í óbreyttri mynd, muni einhverjir vörsluaðilar séreignarsparnaðar þurfa að nýta heimild til frestunar á útgreiðslum í samræmi við b-lið 3. gr. frumvarpsins. Það byggir á því að ef óskað er eftir innlausn verulegs hluta sparnaðar á skömmum tíma — Seðlabankinn talar um 90 milljarða — sé slík takmörkun nauðsynleg þar sem einungis sé með þeim hætti hægt að tryggja jafnræði með þeim sem eru með sparnað sinn áætlaðan í mismunandi ávöxtunarleiðum séreignarsparnaðar.

Í rauninni er verið að segja það aftur og aftur í umsögnum um frumvarpið að leið ríkisstjórnarinnar, að gusa út peningum, eins og ég kalla það, að allir megi taka út, sé hættuleg.

Ég ætla að sleppa því að lesa greinargerð ASÍ því að hún gengur eiginlega út á það sama, mælst er til að tryggt sé að menn taki ekki út séreignarsparnaðinn og fari svo í þrot. Svo þarf að gæta þess að þeir sem sitja eftir í séreignarsparnaðinum lendi ekki í vandræðum vegna þess að búið er að selja bestu eignirnar út úr séreignarsjóðnum.

Svo segir ASÍ í lokin:

„Verði heimildir til innlausnar á séreignarsparnaði mjög víðtækar er hætta á að það leiði til lækkunar á verðgildi eigna sjóðanna og rýri sparnað allra sjóðfélaga.“

Þeir benda aftur á að það sé hættulegt sem ríkisstjórnin leggur til. Hafa þeir þó töluvert vit á þessum málum og hafa sinnt þeim lengi, ASÍ, þar sem þeir hafa verið í stjórnum margra lífeyrissjóða.

Samtök fjármálafyrirtækja, SFF, segja í umsögn sinni, með leyfi herra forseta:

„SFF telja miklu skipta að útgreiðsla verði afmörkuð við þá sem orðið hafa fyrir tekjumissi. Ganga verður út frá því að þeir sem ekki hafa orðið fyrir tekjumissi séu betur í stakk búnir til að mæta þeim erfiðleikum sem ganga yfir, auk þess sem stjórnvöld eru að vinna að útfærslu á tillögum til lausnar á skuldavanda heimilanna.“

Þeir benda sem sagt á að það sé eiginlega fráleitt að greiða út séreignarsparnað til fólks sem þarf ekki á því að halda og er jafnvel ekki með neinar skuldir. Svo segir í niðurlagi hjá þeim:

„SFF hafa áhyggjur af framtíðaráhrifum þeirrar stefnumörkunar að opna á útgreiðslur úr séreignarsjóðum landsmanna og telja brýnt að slíkum breytingum verði sniðinn eins þröngur stakkur og kostur er.“

Það ber eiginlega allt að sama brunni: Tillögur ríkisstjórnarinnar eru hættulegar.

Tími minn er að renna út þannig að ég þarf að drífa mig. Það sem ég ætlaði að benda á var umsögn frá Allianz Ísland hf. sem ekkert hefur verið rædd. Ég man ekki einu sinni hvort ég kom inn á hana í 1. umr. málsins en það er náttúrlega búinn að vera alveg makalaus hraði á þessu máli öllu saman. Mér finnst niðurstaðan vera mjög flaustursleg.

Í umsögn Allianz Íslands hf. er bent á — og ég held ég hafi talað um það í 1. umr. — að um alla Evrópu er venja, sem hefur sennilega verið í 70–80 ár, að lána út á séreignartryggingar, kannski 50–60%. Af því að þetta er skattfrestaður sparnaður hér á landi mætti sennilega ekki lána nema 50% út á það.

En það hefur ekkert verið rætt, herra forseti, þ.e. kosturinn við það ef menn gætu tekið lán út á séreignarsparnaðinn sinn og notað hann til greiðslu á skuldum. Hann er sá að sparnaðurinn héldi áfram óbreyttur. Menn mundu halda áfram að spara og engin lok yrðu á þeim sparnaði, eins og er í tillögum ríkisstjórnarinnar ef menn eiga ekki fyrir þessari milljón eða þá í mínum tillögum þar sem er gert að allur sparnaður fari til greiðslu skulda. Mér finnst að menn hefðu þurft að ræða þessa tillögu líka. Því miður var það ekki gert.

Ég hefði fallist á það, en tími minn er að renna út. Ég kem kannski að þessu síðar en (Forseti hringir.) menn hefðu getað rætt þetta (Forseti hringir.) og fundið miklu betri lausn á þessu máli.