136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[23:59]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið til umræðu í dag og kvöld hið ágæta mál um séreignarsparnað. Málið hefur verið lengi uppi á borðinu og það hafa komið fram hugmyndir um að þetta geti verið ákveðin leið til að koma til móts við bráðavanda heimilanna. Við sjálfstæðismenn höfum haldið þessu máli á lofti nú um nokkurra mánaða skeið og þessi vinna hófst, eins og fram hefur komið, í tíð þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Árna Mathiesens.

Frumvarpið er að mörgu leyti ágætt. Þarna er opnað fyrir leið til að koma til móts við skuldsett fólk hér á landi sem á í erfiðleikum með afborganir lána sinna og hefur fulla þörf fyrir hverja krónu sem það getur útvegað sér. Þörfin er nokkur og það er nauðsynlegt að koma til móts við þennan hóp en það er þó ljóst að þær upphæðir sem hér eru til umræðu munu ekki leysa að fullu vanda þeirra sem eru verulega illa staddir. Hér er um að ræða milljón sem greiðist út á 10 mánaða tímabili en eftir að skattur hefur verið tekinn af upphæðinni er hún 630 þúsund kr., eða 63 þús. kr. á mánuði á tímabilinu. Auðvitað munar eitthvað um slíka upphæð, ég er ekki að draga úr því. Það leikur samt enginn vafi á því að þessir peningar nýtast ekki nema til að greiða smærri skuldir eða til þess að grynnka á skuldastabbanum. Það er jákvætt eins langt og það nær en menn verða að gera sér grein fyrir því að vandi þeirra sem verst eru staddir verður ekki leystur með þessu þó að vissulega létti þetta undir. Það hefur komið fram og þess vegna höfum við sjálfstæðismenn auðvitað stutt málið en við höfum líka verið að benda á að fara aðrar leiðir eða að nær væri að fara aðrar leiðir.

Ég er svo sem ekki að gera lítið úr þessari viðleitni en ég vil benda á og tel mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að hér er aðeins um lítið skref að ræða eins og fram hefur komið í umræðunni í dag. Það er rétt að athuga að fáir eiga mjög verulegar upphæðir í þessum sjóðum. Því verður fólk að gera sér grein fyrir og hver og einn verður að vega það og meta hvort þessi leið verður honum til tekna eða vansa til lengri tíma litið.

En það þarf einnig að gæta að lífeyrissjóðunum. Eins og komið hefur fram er hér veruleg hætta. Við verðum að gæta að því að þetta verði ekki til að stefna sjóðunum í hættu. Þeir gegna gífurlega mikilvægu hlutverki, lífeyrissjóðirnir í kerfi okkar, og almenningur á mikið undir því að þeir standi stöðugir og tryggir. Hérna má því ekki rasa um ráð fram, hæstv. forseti. Það þarf að vanda til verka þótt vissulega þurfi að ganga rösklega fram. Liður í því að vanda til verka er að ræða málið út frá mismunandi hliðum og það höfum við verið að gera og gaumgæfa allar þær hugmyndir sem fram koma.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt gífurlega mikla vinnu í þetta mál. Hann þekkir vel til á þessu sviði og því er rétt að hlusta vel á það sjónarmið sem hann hefur haldið á lofti. Þess vegna er ég mjög undrandi, hæstv. forseti, að ekki hafi verið lögð meiri vinna í að athuga tillögur hans og það að þeim hafi verið vísað beint til athugunar í fjármálaráðuneytinu er náttúrlega engin lausn á þessu máli. Hættan sem hann hefur verið að benda á er til staðar og það þarf að taka það til athugunar og fara yfir tillögur hans. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur skilað inn breytingartillögum við frumvarpið sem við eigum að skoða mjög vel og ég legg til að tillögur hans verði samþykktar við afgreiðslu frumvarpsins. Tillögur hans koma einmitt til móts við ýmsa varnagla sem umsagnaraðilar hafa margir hverjir slegið við þetta mál og margir þeirra benda á sömu atriði og Pétur H. Blöndal hefur verið að gera.

Hugmynd hans gengur út á að lífeyrissjóðirnir gefi út skuldabréf til lánastofnana, til að nýta sér þessa heimild eða skattheimtuna þannig að viðkomandi stofnun verði í raun séreignarsparandi í stað einstaklingsins sem á móti fær greitt upp í skuldir sínar. Þetta hefur í för með sér að engin breyting verður á starfsemi lífeyrissjóðsins og lánastofnunin fær að mörgu leyti tryggari skuldara. Þetta er ástæða til að athuga, hæstv. forseti.

Annað atriði sem breytingartillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals gengur út á er að ekki verði gefin heimild fyrir þessari útgreiðslu nema líklegt þyki að hún komi til með að skila árangri. Það er auðvitað það sem skiptir meginmáli hér. Þrátt fyrir að meiri hluti nefndarinnar treysti sér ekki til að fallast á tillögur hv. þingmanns telur meiri hlutinn samt sem áður ekki útilokað að endurskoða fyrirkomulag greiðslnanna, þegar reynsla hefur komist á þær. Þess vegna mælist til þess að fjármálaráðuneytið skoði tillögurnar. Mér finnast þetta samt ekki nægilega góð vinnubrögð, hæstv. forseti.

Sá möguleiki hefur verið ræddur í dag að menn kunni að nýta sér þessa heimild í stórum stíl þó að þörf þeirra fyrir þessa peninga sé kannski ekki brýn vegna þess vantrausts sem gætir hjá mörgum í garð alls kyns sparnaðarleiða sem auðvitað hafa reynst misjafnlega haldtraustar. Þetta er sjónarmið sem brýnt er að gefa gaum enda liggur í hlutarins eðli að sjóðirnir þola illa ef ásókn í þetta reynist mjög mikil. Ég hlýt að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að því hvort og hversu vel sú hætta sem þarna hefur verið bent á hafi verið athuguð í nefndinni.

Það getur einnig rýrt verðmæti eignarhluta þeirra sem eftir standa í sjóðunum og hlut þess fólks sem enn þá á inni í sjóðunum hjá þeim sem nýta sér heimildina. Til þess að mæta eftirsókn í sjóðina þurfa lífeyrissjóðirnir að selja eignir enda hafa þeir tæpast handbært lausafé í stórum stíl.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu því ég skil vel að hæstv. forseti vilji fara að ljúka þessum fundi eins og hann gaf til kynna áðan. Það er margt í þessu máli sem er full ástæða til að skoða betur en málið er auðvitað komið í þann farveg að það er komið til 3. umr. og þess vegna vil ég hvetja hv. þingmenn til að veita tillögum hv. þm. Péturs Blöndals brautargengi og samþykkja þær þegar málið verður til atkvæðagreiðslu, væntanlega á morgun. Ef taka má taka orð hæstv. forseta trúanleg, um að hann ætli að ljúka umræðunni í kvöld, þá má reikna með að atkvæðagreiðsla um málið fari fram á morgun.