136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfði mér í upphafi ræðu minnar áðan að benda á það sem ég talaði um fyrr í dag, að hér væri líklega um málþóf að ræða af hálfu Sjálfstæðisflokksins til að koma í veg fyrir að annað mál kæmi á dagskrá. Sjálfstæðismenn líta það öðrum augum og þeir eru ekki sammála þessu mati mínu. Þá erum við bara ósammála og þurfum ekki að hafa fleiri orð um það. Það er ekki í fyrsta skipti sem menn deila um mál af þessum toga.

Ég tók sérstaklega fram í ræðu minni að ég teldi að hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd, hefði sinnt vel því starfi þar og hefði farið yfir hugmyndir sínar á málefnalegum forsendum og tekið þátt í umræðunni á málefnalegan hátt. Ég hef ekkert upp á það að klaga, ekki nokkurn skapaðan hlut nema síður sé.

Ég var ekki með nein illyrði í garð þingmanna Sjálfstæðisflokksins vegna málefnalegrar vinnu við þetta mál, það voru frekar ummæli mín um hina þingtæknilegu umræðu í dag sem ég hnýtti í Sjálfstæðisflokkinn. En það hefur svo sem ekkert upp á sig að hnútukastast um það, það er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar takast á um svona hluti. Ég þekki það sjálfur eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu um hríð að stundum er tekist á um svona hluti. Þegar ég var í stjórnarandstöðu fengum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs oft að heyra frá þáverandi stjórnarliðum að við lengdum umræðu að óþörfu.

Gott og vel, þetta er mikilvægt mál og ég tek alveg undir að það er sjálfsagt að ræða það ítarlega. Við höfum gert það í dag og kjósi menn að halda því áfram er það sjálfsagt af minni hálfu, ég mun standa mína plikt hér í þingsalnum eins og þörf krefur.