136. löggjafarþing — 97. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[00:32]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég náði ekki alveg að klára efni máls míns áðan þannig að ég ætla rétt að koma inn á það aftur. Þegar ég hafði hugsað tillögur mínar við 1. umr. og sett þær svo á blað fyrir 2. umr. hugleiddi ég mikið hvort þær ættu að koma í staðinn fyrir tillögur ríkisstjórnarinnar eða ekki. Það skiptir nefnilega verulegu máli hvort báðar reglurnar eru í gildi, að menn geti líka tekið upp að 1 milljón við skuldaskipti. Þegar ég hafði lesið umsagnirnar og eftir að ég hafði hugleitt málið, alveg sérstaklega þegar ég fór að hugsa um að öll lánastarfsemi, lífeyrissjóðasparnaður og annað slíkt, byggir á trausti — það traust hefur því miður beðið mikinn hnekki á Íslandi — varð ég dálítið uggandi yfir ef sú staða skyldi koma upp að stöðva þyrfti greiðslur úr séreignarsjóði. Ég vona að það gerist ekki en á það hafa flestir umsagnaraðilar bent, þar á meðal Seðlabanki Íslands, að gæti gerst. Hvað skyldi sá gera sem les umsagnir um að það kynni að koma til stöðvunar á greiðslum úr séreignarsjóðum og ekki væri tekið fram úr hvaða sjóðum? Jú, menn sækja að sjálfsögðu strax um og þá myndast það sem kallast á ensku „run“ á séreignarsjóðina. Þegar ég hugsaði málið til enda varð mér eiginlega um og ó, herra forseti, vegna tillögu ríkisstjórnarinnar. Það setur því að mér dálítinn óhug að frumvarpið skuli verða að lögum á morgun.

Þess vegna lagði ég til að tillögur mínar kæmu í staðinn fyrir tillögu ríkisstjórnarinnar vegna þess að þær leysa þann vanda sem menn eru að reyna að leysa en tillaga ríkisstjórnarinnar gerir það ekki. 1,2 millj. kr. fyrir hjón, að maður tali ekki um 630.000 fyrir einstakling, gera akkúrat ekki neitt í alvarlegum vanskilum þar sem menn missa eignir sínar. Eign fer aldrei á uppboð fyrir svo litlar upphæðir.

Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er sagt að þetta mundi í reynd þýða að séreignarsparnaðurinn er að fullu veðsetjanlegur. Það er ekki rétt, hann er greiddur út en bankinn eða lífeyrissjóðurinn og skattstjóri fá skuldabréf í staðinn. Svo er spurt hvort skattstjóri muni sætta sig við skuldabréfið. Hann er ekkert spurður að því, löggjafinn setur þau lög að hann skuli taka féð sem greiðslu upp í skatt þannig að hann þarf ekki að sætta sig við eitt eða neitt. Hann tekur bara skuldabréfið sem greiðslu, enda fengi hann það með nákvæmlega sama hætti ef séreignarsparnaðurinn væri frosinn. Þegar maðurinn er 65 ára fær hann það sparnaðinn með nákvæmlega sama hætti, með þeirri ávöxtun sem verður, að því gefnu að skattprósentan haldist. — Að bankinn vilji ekki taka við þessu — samkvæmt lögum á hann að taka við því. Hann er í flestum tilfellum miklu betur settur því að hann er með eitthvert lán í vanskilum, hugsanlega leiðir það til uppboðs og maðurinn getur ekki greitt. Ég held að bankastofnanir séu ekki hrifnar af slíkum lánum. Þær vilja yfirleitt ekki hafa slík lán í bókum sínum.

Mér fannst þessi hugmynd leysa margt en eins og ég gat um þurfti ég að liggja dálítið yfir því hvort hægt væri að hafa báðar tillögurnar hlið við hlið. Ég er á þeirri skoðun að það sé ekki skynsamlegt.

Menn tala dálítið um jafnræði og það virðist vera að hugmyndir ríkisstjórnarinnar gangi út á jafnræði. Jafnræði tapast þegar einn fær greitt út og næsti fær ekkert vegna þess að lífeyrissjóðurinn lokar. Það er ekkert jafnræði. Menn sigla út í mjög mikið ójafnræði.

Leigjendur hafa ekki lent í vandræðum vegna hækkunar á lánum eða vegna gengistryggðra lána eða annars slíks sem húseigendur hafa lent í. Þeir lenda í vandræðum af því að vísitalan hækkar en þess ber að geta að leiga hefur stórlækkað undanfarið þannig að þeir hafa ekki lent í sama vanda og húseigendur sem eru mjög skuldsettir.