136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það gerðist í vikunni að einn banki hrundi á Íslandi og það gerðist fyrir nokkru að í ljós kom að gömlu bankarnir höfðu lánað eigendum sínum óhemju mikið fé, ekki bara lítið heldur óhemju mikið. Ég átti von á að efnahags- og skattanefnd mundi ræða þetta ítarlega en í þessari stöðu var fundur felldur niður í morgun, reglulegur fundur nefndarinnar felldur niður og þetta mál ekki rætt. Það var fundur á mánudaginn þar sem rædd voru önnur mál, þ.e. í gærmorgun, og ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar — (Gripið fram í.) það átti að vera fundur í morgun, reglulegur — ég vildi spyrja hv. formann nefndarinnar hvernig á því stendur að menn sýni þessum hluta efnahagsmálanna ekki meiri áhuga en þetta.

Það er að sjálfsögðu verulega mikið mál þegar banki hrynur og það hefur mikil áhrif bæði á Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði o.s.frv. og starfsmennina, slík aðgerð hefur heilmikil efnahagsleg áhrif. Og þegar í ljós kemur að eigendur bankanna gömlu höfðu lánað sjálfum sér þvílíkar upphæðir og þeir höfðu aldrei lagt neitt fram eða það sem þeir höfðu lagt til bankanna tóku þeir að láni og margfalt það, þá finnst mér virkilega vera ástæða til að ræða það í hv. efnahags- og skattanefnd.