136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var svolítið kostuleg ræða. Í morgun boðuðum við fund í efnahags- og skattanefnd (Gripið fram í.) sem hefst í fyrramálið klukkan 8.30 með fulltrúum frá Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og nokkrum ráðuneyta. Við óskuðum sérstaklega eftir því að nýr seðlabankastjóri kæmi fyrir nefndina og færi yfir stöðuna í fjármálalífinu og efnahagslífinu almennt og sínar áherslur og þá sýn sem hann hefur á þetta. Við ætluðum einnig að ræða við hann um hugsanlegt vaxtalækkunarferli, hvenær það gæti hafist, og allar aðrar forsendur og hagstærðir okkar Íslendinga. Þessir fulltrúar koma væntanlega, alla vega fulltrúar frá þessum stofnunum og ráðuneytum öllum, á fundinn í fyrramálið klukkan 8.30. Við ræddum það á fundi efnahags- og skattanefndar núna rétt áðan, klukkan korter yfir eitt undir liðnum Önnur mál, að þessi fundur yrði haldinn og hann var boðaður í morgun. Þingmaðurinn hlýtur að fagna því af miklum móð. Þar getur hann farið yfir þessi mál eins og við hinir nefndarmennirnir með fulltrúum þessara aðila og verður sérstaklega athyglisvert að heyra mat hins nýja seðlabankastjóra á þessari stöðu allri ef hann sér sér fært að mæta, sem við höfum óskað eftir.

Við munum því halda sérstakan fund í nefndinni um þetta mál og fara mjög ítarlega og vandlega yfir ástand, horfur og stöðu í þessum málum öllum. Þar gefst okkur færi á að spyrja okkar bestu sérfræðinga út í stöðuna eins og hún liggur fyrir akkúrat núna.