136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi út af síðustu ummælum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þá vil ég vekja athygli hans á því að hann situr nú á stjórnlagaþingi Íslendinga. (Gripið fram í.) Það er hins vegar spurning um það hvort menn vilja koma á öðru stjórnlagaþingi og þá er líka spurning um það hvort menn telja það vera til þess að auka veg og virðingu Alþingis að fara þannig fram. (Gripið fram í.) Ég tel svo ekki vera en þá umræðu tökum við á eftir. (Gripið fram í.)

Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli eins og hann gerði og ég vil þakka formanni efnahags- og skattanefndar fyrir að hafa þó brugðist við tilmælum með þeim hætti sem hann gerði og hann lýsti áðan. Hér er um svo grafalvarlegt mál að ræða. Það sem hefur verið að koma í ljós varðandi starfsemi ákveðinna banka á Íslandi sem nú eru komnir í þrot og hvernig eigendur þeirra fóru fram og hvernig lánveitingum var háttað er með slíkum ósköpum að ég reikna ekki með að nokkurn í þessum sal hefði órað fyrir því að ástandið væri með þeim hætti þegar efnahagshrunið átti sér stað á sínum tíma.

Ég reikna heldur ekki með að nokkurn hafi órað fyrir því þegar við vorum að ganga frá því að setja á fót embætti sérstaks saksóknara og verið var að útdeila fjármunum til að hann gæti starfað að ástandið væri miklu alvarlegra en það sem við þó töldum á þeim tíma að það væri. Það er ljóst núna að þeir fjármunir sem voru ætlaðir til starfsemi sérstaks saksóknara eru ekki nema brot af því sem hann þarf að fá til að hann geti sinnt því starfi að rannsaka til hlítar þau alvarlegu brot sem virðist blasa við að séu fyrir hendi. Þetta eru mál sem verður að grípa til og taka á nú þegar, þetta er svo alvarlegt að mann hryllir við að horfa á það og (Forseti hringir.) að þetta skuli hafa getað viðgengist í samfélagi okkar.