136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það þurfti eiginlega að segja mér það þrisvar að á sama degi og okkur var greint frá því að Straumur – Burðarás hefði fallið og það höfðu verið að birtast fréttir um mjög undarlegar lánveitingar í einum bankanna, þá hefði verið ákveðið að fella niður fund í efnahags- og skattanefnd og það var ekki fyrr en eftir að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafði farið sérstaklega fram á það og greint frá því að hann mundi taka þetta mál upp á þinginu að brugðist var við því að boða til fundar í nefndinni.

Auðvitað er eðlilegt að efnahags- og skattanefnd komi saman við þessar aðstæður og ræði þessi stóru mál. Það gengur ekki að nefndin sitji hjá eins og ekkert hafi í skorist og ekkert hafi verið að gerast á þessum dögum. Þetta er auðvitað furðulegt og sýnir það tómlæti sem virðist ríkja í ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að því að ræða um efnahagsmálin.

Það var vitnað til þess að hér hefði farið fram efnahagsmálaumræða í gær og það er mikið rétt. Það var efnahagsmálaumræða sem átti að taka klukkutíma og tók klukkutíma en það verður að segjast eins og er að út úr þeirri umræðu kom sáralítið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það sem okkur var sagt frá eru sömu hlutir og búið er að tala um endalaust á blaðamannafundum forustumanna ríkisstjórnarinnar en ekkert nýtt kom fram. Þess vegna er mjög mikilvægt að efnahags- og skattanefnd reyni að kalla eftir því að fá þau svör sem þurfa að liggja fyrir um það hvernig ríkisstjórnin sér framtíðina fyrir sér. Það er náttúrlega gott og blessað að reyna að átta sig á fortíðinni en það skiptir öllu máli núna að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig málin munu þróast á næstunni.

Það var auðvitað hrollvekjandi að heyra það í gær frá hæstv. forsætisráðherra að ekki stæði til að ljúka málum varðandi nýju bankana fyrr en um mánaðamótin apríl/maí. Það var sagt í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins í byrjun febrúar að það yrði sérstök flýtimeðferð á þeim málum en nú sjáum við hvernig hún er.

Svo fannst mér líka undarlegt að heyra það áðan að það væri fullkomin óvissa um það hvort nýi seðlabankastjórinn mundi láta svo lítið að mæta á fund efnahags- og skattanefndar. (Forseti hringir.) Auðvitað ber honum að koma og gera grein fyrir þessum málum.