136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:09]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Þetta frumvarp hefur valdið miklum vonbrigðum og ekki síður hefur meðferð þess í þinginu valdið vonbrigðum því það var engin tilraun gerð til að leita leiða til að finna betri lausnir til að hjálpa þeim sem eru í vanda og hugsanlega gætu notað séreignarsparnað sinn til að leysa úr þeim vanda.

Það hefur verið fylgst mikið með þessum umræðum í þjóðfélaginu og þar eru vonbrigðin mjög sár. Í gærkvöldi meðan á umræðum stóð fékk ég sent sms-skeyti sem skýrir þetta vel, frá aðila sem var að fylgjast með, þar sem segir: Það verður að koma fram að skyldusparnaðurinn upp á eina milljón mínus skattur er ekki nægileg lausn á vanda fólks. Fólk ætti að fá að taka út allan sinn sparnað eða í það minnsta 2 milljónir og ekki á 6–9 mánuðum heldur í einu lagi. Þetta segir álit almennings á þessu frumvarpi. En þó er það þannig að það er hænuskref í áttina. Það gæti hjálpað einhverjum og þess vegna segi ég já.