136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:10]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það frumvarp sem hér er komið fram. Það tekur mið af þörfum fólksins í landinu og það skal ekki gert lítið úr því að einstaklingar geta fengið um 630 þús. kr. á tilteknu mánaðabili og það skal ekki gert lítið úr því að það getur komið fjölskyldunum í landinu vel. Hér er verið að fara leið sem tryggir fólkinu í landinu rétt á þeim fjármunum sem það á. Það er líka verið að passa upp á að setja ekki þjóðina á hliðina. Þetta er ábyrg og yfirveguð leið og ég minni þá hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað á að í þessari umræðu hafa þeir í raun og veru talað fyrir ábyrgðarlausri leið sem hefði verið miklu meiri opnun og hefði sett þetta kerfi á hliðina.