136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við framsóknarmenn styðjum þær breytingar sem hér eru lagðar til til handa almenningi og fólki sem á í greiðsluerfiðleikum. Það skal alveg viðurkennt í þessari umræðu að þetta er ekki einfalt mál og ég vil benda á að í mjög ítarlegri umræðu á Alþingi í gærkvöldi af hálfu sjálfstæðismanna komu fram þau sjónarmið að aukin opnun gæti ógnað lífeyrissjóðunum en að sama skapi gengi þetta ekki nægilega til móts við þarfir almennings. Það er mjög vandrataður vegur að feta þessa slóð. Við erum að gera þetta eftir okkar bestu samvisku. Þetta er kjarabót fyrir skuldug heimili og fólk í erfiðleikum. Við framsóknarmenn styðjum þetta. Þetta er að sjálfsögðu ekki síðasta málið sem við munum afgreiða á þessu þingi og þess vegna legg ég enn og aftur áherslu á að við högum þingstörfunum með þeim hætti að sem flest mál verði afgreidd frá Alþingi á þessum stutta tíma til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.