136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:16]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði rétt áðan: Lífeyrissjóðirnir vöruðu við því að opna almennt á kerfið. Það er einmitt það sem er verið að gera. Hér er verið að opna almennt á kerfið, þ.e. að allir geti tekið upphæðir út úr lífeyrissjóðskerfinu. (Gripið fram í: Þar liggur ágreiningurinn.) Þar liggur ágreiningurinn, akkúrat. Við vildum einmitt ekki hafa þetta almenna opnun heldur að horft væri meira á hverjir þurfa raunverulega á hjálpinni að halda og að þeir einstaklingar geti kannski tekið 2–3 milljónir út úr þessum sjóðum. Hér geta allir fengið milljón eða 600 þúsund þegar búið er að draga frá skatt. Þarna liggur munurinn, hv. þingmaður. Þetta er almenn opnun sem lífeyrissjóðirnir vöruðu við, rétt eins og þú sagðir, í staðinn fyrir að fara yfir hvern og einn og sjá hverjir eru í raunverulegum vanda. (Gripið fram í.) En engu að síður er hér stigið hænuskref, eins og margoft hefur komið fram, (Forseti hringir.) og þess vegna styð ég málið í heild sinni nú.