136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá liggur bara fyrir að það kemur ekki til mála, eins og hv. þingmaður sagði hér orðrétt, að þjóðin sjálf hafi beina aðkomu (Gripið fram í.) að stjórnlagaþingi eins og hér er lagt til og fjalli þar um tiltekin mál sem þingið hefur oft og iðulega ekki verið fært um að fjalla um, eins og kjördæmismálin og kosningarnar. Þetta hefur verið erfitt, og það þekkja þingmenn, að koma hér í gegn breytingum á kjördæmaskipan og kosningamálum vegna þess að þingmenn hafa hagsmuna að gæta og hafa sífellt verið að máta sjálfa sig í hvort þeir pössuðu inn sjálfir og héldu sínu sæti í tilteknum breytingum sem hafa verið lagðar til. Það er bara með þeim hætti og það er bara miklu eðlilegra að það sé fólkið sjálft sem fjalli um það mál á stjórnlagaþingi eins og hér er lagt til. (Gripið fram í.) Í þessu frumvarpi um stjórnlagaþing er lagt til með hvaða hætti þingið hafi aðkomu að þessu máli.

Stjórnlagaþing á að fjalla um marga aðra þætti sem er mjög mikilvægt að það fjalli um sem þingið hefur ekki getað fjallað um þó að ítrekað hafi verið settar á stjórnarskrárnefndir til að fjalla um þau mál, eins og skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra sem þarf að taka á. Menn vita að það eru óskýr valdmörk milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og á því þarf að taka. (Gripið fram í: … stjórnlagaþing.) Það hefur líka verið rætt um að það þurfi að taka á hlutverki og stöðu forseta lýðveldisins, ég held að það sé miklu nær að stjórnlagaþing sjálft taki á því en Alþingi. Það eru ýmis mál sem eru miklu betur til þess fallin að stjórnlagaþing fjalli um þau og til þess sé valið eftir þeim aðferðum sem eru lagðar til í þessu frumvarpi en að fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fara sem segir að ekki komi til greina að fólkið hafi beina aðkomu að, að stjórnlagaþingið eigi bara að vera ráðgefandi sem væri (Forseti hringir.) þá til þess að Alþingi gæti fellt (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) allar þær breytingar sem stjórnlagaþing mundi leggja til.