136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var nú sérstök ræða hjá einum af flutningsmönnum þessa máls hv. þm. Birki J. Jónssyni. Hv. þm. Birkir J. Jónsson vakti sjálfur athygli á því að þetta er í annað skipti á fáum vikum sem hann mælir fyrir tillögu um stjórnarskrárbreytingar og er þessi tillaga sem hann leggur nú fram verulega frábrugðin þeirri sem hann var með fyrir fáum vikum. Það væri því eðlilegt að spyrja hv. þm. Birki J. Jónsson hvort við ættum von á fleiri tillögum um stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing frá honum áður en þessi mánuður er liðinn.

Ég vil gera athugasemdir við nokkur atriði í þessu. Í fyrsta lagi vildi ég taka það fram að auðvitað eru kröfur um ýmislegt og ýmsar breytingar í samfélaginu. Við þurfum að hlusta á þær kröfur. Það verður efnt til kosninga í næsta mánuði til þess að gefa fólki tækifæri til að segja skoðun sína á þeim hlutum sem eru í deiglunni.

Er ekki eðlilegt, hv. þm. Birkir J. Jónsson, að fólk í kosningum taki afstöðu til þeirra spurninga sem hér eru á borðum frekar en við séum að gera það í miklum spreng rétt fyrir þinglok?

Í annan stað vil ég spyrja hv. þm. Birki J. Jónsson hvort honum finnist vinnubrögðin í sambandi við aðdraganda þessa máls og framlagningu þess vera til fyrirmyndar miðað við það að stjórnarskráin er grundvallarlög lýðveldisins. Grundvallarlög sem önnur lög byggja á og krefjast þess vegna vandaðri undirbúnings og lagasetningarháttar en önnur löggjöf. Finnst honum þetta til fyrirmyndar?

Í þriðja lagi vil ég benda hv. þm. Birki J. Jónssyni á að sú tillaga sem gerir ráð fyrir stjórnlagaþingi gerir ráð fyrir því að almenningur í landinu kjósi sér fulltrúa til að sitja á stjórnlagaþingi. Í alþingiskosningum er það þannig að almenningur kýs sér fulltrúa til að sitja á Alþingi. Þess vegna er það bara áróður og blekking þegar því er haldið fram að með stjórnlagaþingi sé almenningi (Forseti hringir.) gefin bein aðkoma að stjórnarskrárvinnunni. Það er bara blekking. Í báðum tilvikum er um að ræða (Forseti hringir.) fulltrúalýðræði. Ekki beint lýðræði.