136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að hér sé einhver blekkingarleikur á ferðinni. Blekking því að hér sé um fulltrúalýðræði að ræða. Við áttum okkur alveg á því. Hélt hv. þingmaður að öll þjóðin ætti að vera á þessu stjórnlagaþingi? (Gripið fram í: Þú talaðir þannig.) Þetta stjórnlagaþing á að vera háð utan við hagsmuni stjórnmálaflokkanna. Það eru ekki jöfn tækifæri fyrir alla einstaklinga eins og flokkakerfið er upp byggt og alþingiskosningar eru að komast á lista flokkanna. Það veit hv. þingmaður. Við viljum að gefa hinum venjulega manni sem er ekki bundinn í stjórnmálaflokk kost á því að bjóða sjálfan sig fram til þess að sitja á stjórnlagaþingi.

Hvað er svona hryllilegt við það? Af hverju hefur hv. þingmaður svona mikið á móti því að einstaklingar, þótt þeir séu ekki í tilteknum stjórnmálaflokki, geti boðið sig fram til stjórnlagaþings? Ég vil fá svör hv. þingmanns við því.

Síðan vil ég segja af því hv. þingmaður reynir að gera lítið úr málflutningi okkar framsóknarmanna hér á vettvangi þingsins að við lögðum fram frumvarp um breytingar á þessu máli, um stjórnlagaþing. Þær breytingar voru byggðar á tillögum flokksþingsins. Síðan var sett þriggja manna nefnd til þess að fara yfir málið. Þetta var niðurstaða hennar. Þingflokkurinn er mjög sáttur við málið eins og það lítur út og mun fylgja því eftir.

En af því að hv. þingmaður talar um margar skoðanir þá vil ég nefna að það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á haustdögum sem lagði fram breytingar á frumvarpi um eftirlaun æðstu embættismanna ríkisins sem gekk ekki nægilega langt og við framsóknarmenn og vinstri grænir andmæltum því og lögðum fram sértillögu. Þegar við síðan lögðum fram okkar tillögu eftir að ný ríkisstjórn var mynduð, sem Framsókn styður þótt hún eigi ekki aðild að henni, (Forseti hringir.) þá var Sjálfstæðisflokkurinn samþykkur því að þær tillögur gengju fram. Hvað breyttist í millitíðinni, hv. þingmaður?