136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa því yfir að ég hef mikinn áhuga á að stjórnarskránni verði breytt og það verulega. Ég hef líka áhuga á því að einhver ákveðinn hópur verði myndaður um það, sem má mín vegna heita stjórnlagaþing. En ég vil benda á að Alþingi er stjórnlagaþing. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er Alþingi stjórnlagaþing og gerir breytingar á stjórnarskránni.

Vandinn í dag er sá að þegar kosið er um breytingu á stjórnarskránni er jafnframt verið að kjósa ríkisstjórn eða þing sem fer með löggjafarvald. Það leiðir til þess að þjóðin greiðir í raun aldrei atkvæði um stjórnarskrárbreytinguna eina og sér. Það er atriði sem mér finnst að þyrfti að breyta nr. eitt, tvö og þrjú. Það er atriðið í 4. gr. frumvarpsins. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann eitthvað rætt við Sjálfstæðisflokkinn um að sú grein yrði samþykkt? Í rauninni er 1. gr. verkefni hins nýja stjórnlagaþings, 3. og 4. gr. líka — nema 4. gr. að því leyti að hún felur næsta Alþingi að semja lög sem það getur að sjálfsögðu gert. Þetta langar mig til að spyrja um.

En varðandi umræðuna um stjórnmálaflokkana þá er það hárrétt, hér eru gamlir flokkar sem hafa lengi verið við völd. En þeir flokkar eru í upphafi myndaðir af fólki. Þær hreyfingar sem eru í gangi úti í bæ, Raddir fólksins o.s.frv., þurfa líka að mynda einhvers konar flokka eða félög til að bjóða fram. Við ætlum ekki að hafa mörg hundruð þúsund manns til að velja úr í kjörklefanum. Það mun gerast að stjórnmálaflokkarnir, sem eru best skipulagðir í landinu, félagasamtök, munu bjóða fram lista. Það er bara þannig og mér finnst mjög slæmt að menn skuli flýta kosningum vegna þess að nýju hreyfingarnar hafa ekki fengið andrými til að myndast.