136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:36]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingar á stjórnarskipunarlögum sem er auðvitað mikið grundvallarverkefni að ganga til þegar hugað er að breytingum á stjórnarskránni. Það fer ekki á milli mála að breytingar á stjórnarskránni eru viðfangsefni sem má ekki verða eitthvert flýtimeðferðarverkefni sem notað er sem eins konar barefli í deilum stjórnmálamanna á Alþingi.

Það liggur alveg fyrir að í kjölfar bankahrunsins eru miklar deilur í samfélaginu og mikill óróleiki. Ég tel að það sé mjög alvarlegt mál að þegar leiðtogar stjórnmálaflokka grípa til þess ráðs að auka deilur í samfélaginu með því að skipta þinginu upp í tvær stríðandi fylkingar eða þrjár sem fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Það er ekki rétti tíminn núna, það eru ekki réttu aðstæðurnar til þess að ganga til slíks óvinafagnaðar.

Við sjálfstæðismenn höfum lýst því að við erum viljugir til þess að ganga til breytinga á stjórnarskránni. Við höfum lýst því margir hverjir hér á hinu háa Alþingi í hverju það geti verið fólgið. Við viljum ganga til breytinga og við höfum tekið þátt í vinnu við að endurskoða stjórnarskrána. Fyrir þingið var lagt mikið rit af hálfu forsætisráðherra í febrúar 2007 um endurskoðun stjórnarskrárinnar, þar sem gerð var grein fyrir mjög umfangsmikilli vinnu við að endurskoða stjórnarskrána. Við sjálfstæðismenn höfðum gert ráð fyrir því í samstarfi við Samfylkinguna að á seinni hluta þessa kjörtímabils yrði hugað að breytingum á stjórnarskránni.

Í þessari endurskoðunarskýrslu sem hægt er að nálgast hér í þinginu kemur greinilega fram hversu mikil vinna hefur verið lögð í það starf. Þar er fjallað um uppbyggingu og megineinkenni stjórnarskrárinnar og hægt er að lesa sér til um það. Þar er fjallað um grundvöll stjórnskipunarinnar, um þjóðaratkvæðagreiðslu — af því að síðasti ræðumaður ræddi um það. Fjallað er ítarlega um forseta, ríkisstjórn og Alþingi, dómstóla, ríki og kirkju og mannréttindaákvæðin sem var breytt sérstaklega 1995. Fjallað er um utanríkismál og stjórnarskrárbreytingar, umhverfisvernd, eignarhald á auðlindum og meðferð þeirra og nýtingu. Allt þetta var til meðferðar í þeirri stjórnarskrárnefnd sem skilaði þessari ítarlegu skýrslu.

Starf þeirrar nefndar sem skilaði skýrslunni var býsna langt komið en því miður tókst ekki að ná landi með þær breytingar sem hefði þurft að gera. Það er kannski undirrót þess að nú er teflt fram hugmyndum og kröfu um verulegar breytingar sem eru á allt öðrum nótum en þær breytingar sem hér er aðallega verið að ræða um. Gert er að algjöru forgangsmáli af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að breyta stjórnarskránni. Það virðist vera að hún hafi flækt og fengið Framsóknarflokkinn til liðs við ríkisstjórnina með loforði um að ganga til breytinga á stjórnarskránni sem gerir ráð fyrir miklum grundvallarumsnúningi, má segja, og breytingum sem fylgja hinu svokallaða stjórnlagaþingi sem framsóknarmenn hafa mjög borið fyrir brjósti. Ég harma að staðið skuli vera að þessum breytingum og tillöguflutningi með þeim hætti sem hér er gert.

Það er síðan umhugsunarefni, og ég tel að það sé mikill blekkingarleikur, þegar því er haldið fram að bankahrunið og afleiðingar þess megi með einhverjum hætti rekja til stjórnarskrárinnar. Þar voru allt aðrir kraftar að verki og, eins og ég sagði áðan, það er ekki rétti tíminn eða réttar aðstæður og umhverfi til þess að ganga til breytinga við þær aðstæður sem við búum við í samfélaginu í dag. Allra síst er ástæða til að hafa í frammi flýtimeðferð á stjórnarskrárbreytingum núna. Þær eru hreinlega ávísun á mikil vandræði og geta orðið ávísun á stjórnleysi og stjórnarkreppu þegar svo harkalega er gengið fram sem hér er gert.

Hv. þm. Björn Bjarnason vitnaði í ræðu sinni áðan í mjög athyglisverða grein sem Skúli Magnússon lögfræðingur og ritari við EFTA-dómstólinn, dósent við Háskóla Íslands, skrifar í Fréttablaðið í síðustu viku. Mig langar til þess að vitna í niðurlag þeirrar greinar sem þingmaðurinn vitnaði til, en hér er takmarkaður tími til að vitna í mjög langan skrifaðan texta.

Þar segir Skúli Magnússon, sá merki lögfræðingur, með leyfi forseta:

„Íslenska stjórnarskráin er ekki úrelt plagg þótt á henni séu ýmsir annmarkar sem fræðimenn og flestir aðrir sem til þekkja eru raunar að mestu sammála um hverjir séu og hvernig beri að mæta. Sjálfsagt er því að umræða um stjórnarskrána haldi áfram og sé leidd til lykta í opnu, lýðræðislega og stjórnskipulega réttu ferli. Hins vegar er engin ástæða til að taka í skyndi stefnu út í óvissuna, gefa upp boltann fyrir allsherjarendurskoðun stjórnarskrárinnar með tilheyrandi fjárhagslegum kostnaði og ófyrirséðum afleiðingum. Efnahagskreppa og stjórnskipuleg ringulreið eru slæmur kokteill, svo ekki sé sterkar tekið til orða. Um stjórnarskrána gildir líkt og um margt annað að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Svo mörg voru þau orð í grein Skúla Magnússonar.

Ég vildi draga þetta fram vegna þess að verið er að blekkja og gefa rangar hugmyndir um nauðsyn þess að gera breytingar á stjórnarskránni í flýti, illa undirbúnar og illa gerðar.

Ekki má gleyma því og ég hef margsagt að með þeim hugmyndum sem eru á ferðinni í þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar er verið að veikja Alþingi sem stofnun. Við Íslendingar erum stoltir af að kynna og tala um að Alþingi hafi verið stofnað árið 930 og það er stolt okkar og viðmiðun. Stjórnlagaþing, eins og það er sett upp í hugmyndum framsóknarmanna og ríkisstjórnarinnar, mun veikja Alþingi. Það fer ekki á milli mála.

Hv. fyrrverandi þingmaður, Bryndís Hlöðversdóttir, sem nú starfar sem forstöðumaður lagadeildar Háskólans í Bifröst og er aðstoðarrektor þar, skrifar grein um frumkvæði Alþingis — reyndar í sama blaði og Skúli Magnússon lögfræðingur skrifar og ég vitnaði til áðan. Í greininni talar Bryndís Hlöðversdóttir, sem var áhrifamikill þingmaður á vettvangi Samfylkingarinnar, um Alþingi. Ég vil geta þess að hún er formaður endurskoðunarnefndar, sem ég beitti mér fyrir sem forseti þingsins á sínum tíma, sem var skipuð til að skoða eftirlitshlutverk þingsins. Bryndís segir með leyfi forseta:

„Það er oft talað um að Alþingi skorti frumkvæði og hafi ekki nægilegt sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu. Virðist sem flestir séu sammála um að eitt af því sem þurfi að taka breytingum sé að Alþingi sé styrkt í viðleitni sinni til að veita framkvæmdarvaldinu verðuga viðspyrnu. Ég tek heils hugar undir það og tel brýnt að í tengslum við heildarendurskoðun á stjórnarskránni sé hugað að stöðu Alþingis og mikilvægu hlutverki þess í stjórnskipaninni.

Ef nefna á til sögunnar mikilvægustu hlutverk þingsins kemur löggjafarhlutverkið fyrst upp í hugann, auk fjárstjórnarvaldsins, ásamt eftirlitshlutverkinu. Um það síðastnefnda hefur ekki verið fjallað mikið í íslenskum stjórnskipunarrétti, en í nágrannalöndum okkar hefur verið lögð í það mikil vinna á síðari árum að efla eftirlitshlutverk þinganna.

Skipaðir hafa verið vinnuhópar og fé kostað til rannsókna á samskiptum þinga og ríkisstjórna, sem síðan hefur gjarnan skilað sér í réttarbótum á þessu sviði.“

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu hér og sakna þess satt best að segja að forsætisráðherra, fyrsti flutningsmaður þessa máls, skuli ekki hlýða á umræðurnar, vegna þess að ég held að hæstv. forsætisráðherra hefði mjög gott af því að fylgjast með því sem sagt er eða skrifað um þessi mál, ekki síst af hálfu fræðimanna og þingmanna. Ég held að í meðförum nefndar þurfi að kalla til þá sem um þessi mál hafa fjallað, eins og þá sem hér hefur verið vitnað til.

En eftirlitshlutverk þingsins er geysilega mikilvægt og þeim mun meira sem gengið er á rétt þingsins og þeim mun frekar sem gerðar eru tilraunir til að veikja þingið þeim mun erfiðara á það um vik að sinna þessu mikilvæga eftirlitshlutverki sínu. Ég held að með því að samþykkja frumvarpið sem hér er til meðferðar yrði höggvið mjög alvarlegt skarð í þann múr sem Alþingi þarf að byggja til að styrkja eftirlitshlutverk sitt. Ég vænti þess að hv. þingmenn, þar á meðal hv. flutningsmenn frumvarpsins úr hópi framsóknarmanna, þurfi að kynna sér þau sjónarmið sem hér hefur verið farið yfir.

Allir sem fjalla um stjórnarskrána og breytingar á henni leggja mjög ríka áherslu á að mikilvægt sé að ekki sé hrapað að breytingum á henni. Í skýrslunni sem ég vitnaði fyrr til um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá febrúar 2007 segir á blaðsíðu 20, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um stjórnarskrárbreytingarnar.

„Samkvæmt 79. gr. núgildandi stjórnarskrár verður henni breytt með samþykki einfalds meiri hluta á tveimur þingum enda fari fram kosningar á milli. Stjórnarskrárbreytingar eru þannig einungis bornar undir þjóðina með óbeinum hætti. Þótt formlega sé krafist einfalds meiri hluta á þingi hefur í raun yfirleitt verið víðtækari samstaða á þingi um stjórnarskrárbreytingar.“

Þarna komu fulltrúar allra flokka að og undirstrikað er að hér verði ekki gerðar breytingar á stjórnarskránni án þess að góð samstaða sé um þær, vegna þess hversu mikil grundvallarlöggjöf er á ferðinni. Ég vil undirstrika sérstaklega hversu mikilvægt það er.

En svo vitnað sé áfram í það sem stendur í skýrslunni þá segir á blaðsíðu 148, með leyfi forseta, svo ég undirstriki hversu mikla þýðingu það hefur að sátt sé um breytingarnar:

„Reglur sem þessar hafa það að markmiði að tryggja vissan stjórnskipulegan stöðugleika og jafnframt að sem breiðust sátt sé um grundvallarreglur samfélagsins. Hins vegar má segja að ekki sé heldur æskilegt að of erfitt sé að breyta stjórnarskrá. Hætt er við að stjórnarskráin verði þá ekki lengur í takt við raunveruleikann. Til hliðar við hana kunna að þróast óskráðar venjur sem erfitt er að henda reiður á.“

Ástæða er til að vekja athygli á því sem hér er fjallað um. Alls staðar þar sem menn fjalla um og skrifa um stjórnarskrárbreytingarnar er lögð mjög rík áhersla á hversu mikilvægt er að ekki sé hrapað að þeim breytingum og menn vandi sig og leiti að sem bestri sátt um þær.

Þær hugmyndir sem eru til meðferðar í frumvarpinu og varða stjórnlagaþing eru nýjung sem vert er að skoða. Ég hef hins vegar talið og tel að ekki sé skynsamleg ráðstöfun að kjósa til stjórnlagaþings sem taki völdin af Alþingi. Alþingi Íslendinga á að vera stjórnarskrárgjafinn og mikil skammsýni væri og óviturlegt að gera þá breytingu að stjórnlagaþing setji stjórnlög og kalli eftir umsögn frá Alþingi, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ekki er mikil reisn yfir Alþingi ef það fyrirkomulag verður ofan á. Ég tel sem sagt að höfundar frumvarpsins fari því miður þá leið sem allt bendir til að veiki Alþingi, ef þetta verður niðurstaðan.

Nokkuð hefur verið fjallað um þann mikla kostnað sem fylgir því að halda úti öðru þingi. Í umræðunni í þinginu hefur verið bent á að það gæti hlaupið á mjög háum fjárhæðum, jafnvel 1,5 milljörðum, að halda úti 41 þingmanni á stjórnlagaþingi vegna þess að svo verður að búa um hnútana að aðstæður séu mjög svipaðar og gerist á þingi, eins og hugmyndir eru uppi um samkvæmt frumvarpinu. Þannig yrði kostnaður umtalsverður fyrir utan það að gert er ráð fyrir mjög löngum starfstíma stjórnlagaþingsins. Því vara ég mjög eindregið við þeim hugmyndum, bæði vegna kostnaðar en fyrst og fremst vegna þess að ég óttast að stjórnlagaþing með löggjafarrétti veiki Alþingi.

Mér finnst koma til greina að finna einhverja millileið, vegna þess að ég tel að við eigum að ganga mjög fast og hart fram í því að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni og það þarf að finna einhverja millileið sem gæti verið ráðgefandi þingstarf, en ekki með þeim umfangsmikla hætti og mikla kostnaði sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Mér finnst það vera alger fásinna miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag. En að allra leiða verði leitað í meðförum nefndarinnar, sem fær málið til umfjöllunar, til að ná sátt um aðferð sem getur tryggt heilbrigða og góða umfjöllun um breytingar á stjórnarskránni.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja nokkur orð um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að við þurfum að setja sérstaka löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu. Við blasir að búast má við að þjóðin þurfi að ganga til atkvæða — t.d. ef kæmi til þess að farið yrði í viðræður við Evrópusambandið þyrfti að sjálfsögðu að koma til þjóðaratkvæðagreiðslu í jafnvel eitt, tvö eða þrjú skipti í tengslum við það þannig að traustur rammi þarf að vera utan um þá framkvæmd alla. Þess vegna hefði ég talið að það ætti ef til vill að vera forgangsverkefni hjá okkur að ganga frá löggjöf sem varðar allt er snertir þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég tel að þingið þyrfti að gefa sér góðan tíma til að undirbúa það.

En að lokum, virðulegi forseti, vara ég eindregið við því að þetta frumvarp fari óbreytt í gegnum þingið, eða eins og það er lagt fram. Við verðum að leita eftir því að eins mikil sátt verði um breytingar á stjórnarskránni og nokkur kostur er og ég tel að sú leið sé algerlega óásættanleg sem ríkisstjórnin hefur valið að leggja fram hér í þinginu og fengið Framsóknarflokkinn til að fylgja eftir.