136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:00]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þingmanni að ég sé á móti þjóðaratkvæðagreiðslu, ég hef aldrei sagt það. Ég fór sérstaklega yfir það að við þyrftum að setja hér löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu og þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, og sérstaklega vinstri grænir, tala um að við treystum illa þjóðinni þá eru það bara útúrsnúningur og fullyrðingar sem fá ekki staðist. Að sjálfsögðu treystum við þjóðinni, við fulltrúar þjóðarinnar hér á Alþingi. Ef svo óheppilega færi að stjórnlagaþing yrði kjörið yrðu þar fulltrúar þjóðarinnar, kjörnir með nákvæmlega sama hætti og fulltrúar þjóðarinnar sem hér sitja. Hér er haldið úti miklum blekkingarleik.

Ég ítreka að ég hef ekki neitt á móti þjóðaratkvæðagreiðslu, ég veit ekkert hvort þjóðin hefði samþykkt kjördæmabreytinguna, það hefði sjálfsagt verið mjög mismunandi eftir kjördæmum. Það er fullseint að fara að velta því fyrir sér núna en ég tel að við eigum að gera ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði oftar tekin upp um hin ýmsu mál, en það þarf að vanda. Við megum heldur ekki efna til upplausnar í stjórnarskipun landsins eða á vettvangi framkvæmdarvaldsins með því að ekki sé hægt að taka ákvarðanir og menn verði svo ákvarðanafælnir að þeir verði að vísa öllu til þjóðarinnar og koma öllu í kosningar áður en hægt er að taka ákvarðanir. Þarna þarf að fara skynsamlega bil beggja og tryggja sem mestan stöðugleika og öryggi í (Forseti hringir.) samfélagi okkar.