136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:04]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski eins og á síðutogaranum í gamla daga, best að hafa vaktaskipti í þinghúsinu, stjórnlagaþing fyrir hádegi og Alþingi eftir hádegi. Þetta er umræða sem er alveg ótrúleg og gengur ekki. Ég spyr miðað við andsvar hv. þingmanns: Hvers vegna eru hugmyndir í þessu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu ekki betur útfærðar? Ef á að fara að greiða atkvæði um stórframkvæmdir, sölu eigna o.s.frv., af hverju er það þá ekki inni í þessu frumvarpi, ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að þjóðin eigi að kjósa um slíkar ákvarðanir? Þetta virðist ekki vera hugsað til enda fremur en margt annað í frumvarpinu.

Þessu er fleygt fram illa undirbúnu og lítt hugsuðu. Þess vegna koma svona vangaveltur fram hér eins og hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ég efast ekki um að það er allt saman í góðri meiningu en það sýnir engu að síður að málið er ekki fullbúið af hálfu flutningsmanna og þarf miklu betri skoðun hér í þinginu.

Ég vona að hv. þingmenn átti sig á því að svona er í pottinn búið og við þurfum að … (JBjarn: Af hverju ertu á móti þjóðaratkvæðagreiðslu?) Ég er ekki á móti þjóðaratkvæðagreiðslu, hv. þingmaður sem kallar úr hliðarsal og virðist ekki frekar en fyrri daginn hlusta á það sem verið er að segja. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það er mikill galli á hv. þingmanni að halda því fram sem búið er að segja honum að sé öðruvísi. Ég hef talað um það hér og lagt áherslu á að við þurfum að setja sérstaka löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu og ég er fylgjandi henni. (JBjarn: Þetta snýst um …)