136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:58]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hefur staðið yfir umræða í dag um stjórnarskipunarlög, afar mikilvæg umræða um mikilsvert grundvallarmál. Við höfum fylgst með því og okkur hefur verið boðið upp á það, hæstv. forseti, að 1. flutningsmaður þessarar tillögu, hæstv. forsætisráðherra, hefur ekki verið í húsinu.

Hér er verið að fjalla um stjórnarskrá landsins og 1. flutningsmaður frumvarpsins er fjarri. Þess vegna geri ég kröfu til þess að hæstv. forsætisráðherra verði kölluð til þings. Allt annað er óeðlilegt en að hún sé hér til staðar, hlusti á umræðurnar og bregðist við eftir atvikum. Það er krafa mín við þessar aðstæður að hlé verði gert á fundinum þangað til hæstv. forsætisráðherra kemur í hús.