136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:59]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að koma skilaboðum á framfæri við hæstv. forsætisráðherra, 1. flutningsmann þessa frumvarps. Það er auðvitað ótækt þegar verið er að ræða breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins, stjórnarskránni sjálfri, að 1. flutningsmaður málsins og forsætisráðherra sé ekki viðstödd.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er hér staddur og ég þakka honum fyrir það og það væri ágætt ef hann tæki þátt í umræðunni. Ekki síst í ljósi þeirra ummæla sem hæstv. heilbrigðisráðherra lét falla í umræðu um stjórnarskrármál árið 2007 þar sem hann sagði að stjórnarskránni ætti ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. En framganga Framsóknarflokksins í þessu máli sérstaklega ber þess öll merki.

Það mál sem nú er til umræðu og það hvernig flutningsmenn málsins halda á því máli er algerlega sambærilegt við þá lýsingu sem hæstv. heilbrigðisráðherra lét falla í umræðum hér 9. mars 2007. Ég vil því þakka hæstv. forseta fyrir að kalla hæstv. forsætisráðherra til og ég tel að það sé algert skilyrði að hún verði hér við umræðuna.