136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þakka ég hæstv. fjármálaráðherra fyrir það að gera svo lítið að vera hér við þessa umræðu. En ég tek undir það með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að það er auðvitað alger vanvirðing við þingið og ekki síður við stjórnarskrána að hæstv. forsætisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni, hendi því frumvarpi inn í þingið og láti svo ekki sjá sig við umræðuna.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði árið 2007, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Um þetta mál er engin samstaða og ég kalla það ekki mikla ábyrgð af hálfu hæstv. forsætisráðherra að leggja hér fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni og vera ekki viðstödd umræðuna. Mér finnst það fyrir neðan allar hellur. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég teldi eðlilegt að umræðunni yrði frestað þar til að hæstv. forsætisráðherra kemur í hús.