136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:32]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarp sem var lagt fram af fjórum flokkum án aðkomu þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Flutningsmenn eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir frá Samfylkingu, Steingrímur J. Sigfússon frá Vinstri grænum, Birkir Jón Jónsson frá Framsóknarflokki og Guðjón Arnar Kristjánsson frá Frjálslynda flokknum.

Frumvarp það sem hér er til 1. umr. er breyting á grundvallarlögum lýðveldisins, sjálfri stjórnarskrá Íslands. Í dag er 10. mars og tilkynnt hefur verið að boðað verði til kosninga til Alþingis og þær haldnar 25. apríl næstkomandi. Til þess tíma eru tæpar sjö vikur og einungis örfáir dagar eftir af starfstíma þingsins. Ég segi örfáir dagar vegna þess að það liggur í augum uppi að gefa verður eðlilegan og nauðsynlegan tíma fyrir kosningabaráttuna.

Inn í þessar rúmlega sex vikur koma páskar þannig að ljóst er að tími fyrir kosningabaráttu er skammur. Ég hlýt að ætla að hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sýni fólkinu í landinu þá lágmarksvirðingu að það fái tækifæri til að kynnast og heyra málflutning frambjóðenda til alþingiskosninga. Í þeirra hópi verða augljóslega margir nýir einstaklingar sem eiga rétt á því í lýðræðisþjóðfélagi að kynna stefnumál sín og áherslur fyrir kjósendum. Réttur almennings er ekki minni til að fá tækifæri til að hitta og skiptast á skoðunum við frambjóðendur og spyrja þá sem verið er að veita umboð til að fara með málefni þjóðarinnar á löggjafarþinginu á næstu árum.

Því er furðulegt, svo ekki sé sterkar að orði komist, að nú skuli lagt fyrir þingið frumvarp til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þegar ljóst er að mjög knappur tími er til að ræða efni þess og vinna nauðsynlega vinnu í þingnefndinni sem fær það mál til meðferðar. Greinilega er ekki ætlast til að aðilar utan þingsins hafi tækifæri til að koma að málinu með athugasemdir og ábendingar. Til þess er tíminn allt of skammur og greinilegt að keyra á breytinguna hér í gegn á skömmum tíma.

Stjórnarskránni hefur oft verið breytt á liðnum árum og rækilega er fjallað um það í greinargerð frumvarpsins, eins og hv. þm. Geir H. Haarde gerði grein fyrir fyrr í dag. Heilir kaflar hennar hafa verið teknir til rækilegrar endurskoðunar, eins og t.d. þær greinar sem fjalla um mannréttindi, ákvæði um kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis.

Greinilegt er af lestri greinargerðar frumvarpsins að alla tíð hefur verið lögð áhersla á það að ná víðtækri sátt um málin og fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafa komið að undirbúningi og breytingum. Það vekur því sérstaka athygli við framlagningu frumvarpsins að hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að undirbúa málið án eðlilegs samráðs við þingmenn allra stjórnmálaflokka. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur kosið að sniðganga þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þess flokks sem hefur flesta þingmenn á Alþingi Íslendinga eða 26. Þvílík vinnubrögð. Því er greinilegt hvaða hug stjórnarflokkarnir bera til lýðræðislegra vinnubragða.

Frumvarpið er unnið af þröngum, þriggja manna ráðgjafahópi ríkisstjórnarinnar, en ekki í samstarfi allra stjórnmálaflokka eins og ávallt hefur verið gert þegar breytingar á stjórnarskránni hafa verið undirbúnar.

Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um náttúruauðlindir. Þar vakna strax spurningar um áhrif þeirrar greinar á fiskveiðistjórnarkerfið sem nú er í gildi. Ég tel mikilvægt að þingnefndin fari rækilega í saumana á því atriði og kalli til utanaðkomandi aðila til viðræðna og álitsgjafar og það verði skoðað og komið fram með þau sjónarmið sem utanaðkomandi aðilar telja að komi sér vel.

Ég vil sömuleiðis lýsa skoðun minni, virðulegi forseti, á 3. gr. frumvarpsins sem varðar breytingu á 80. gr. stjórnarskrárinnar og fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel mjög nauðsynlegt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu séu skýr. En það sem ég geri athugasemd við í þessari frumvarpsgrein er að einungis þarf 25% allra kjósenda á kjörskrá til að geta gert breytingar og m.a. fella úr gildi lög sem Alþingi hefur sett.

Um þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að setja löggjöf og um hana þarf að vera góður rammi, eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson gat um hér áðan, ef við þyrftum að fara í veigamiklar breytingar, eins og t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að Alþingi verði að gefa sér góðan tíma til að skapa löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki ana að einu eða neinu í því sambandi.

Hæstv. forseti. Í 4. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um nýtt ákvæði um stundarsakir. Ákvæði um að boðað verði til stjórnlagaþings sem hefur það verkefni að setja landinu nýja stjórnarskrá. Stjórnlagaþingið á að kjósa beinni kosningu samtals 41 fulltrúa eða þingfulltrúa og að auki 20 áheyrnarfulltrúa, sem eiga að starfa næstu tvö árin að nýrri stjórnarskrá. Hlutverk Alþingis á að vera að veita umsögn um frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Er hér ekki verið að hafa endaskipti á hlutunum? Að mínu viti er mikilvægasta hlutverk löggjafarþingsins, Alþingis Íslendinga, að setja landinu grundvallarlög, þau lög sem öll önnur lög verða að byggja á og mega ekki stangast á við.

Nú er allt í einu með þessu frumvarpi verið að setja Alþingi í aukahlutverk, umsagnarhlutverk. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í grein sem birtist í Fréttablaðinu 4. mars síðastliðinn og er eftir Skúla Magnússon lögfræðing. Þar segir hann:

„Þótt hugmyndin um stjórnlagaþing kunni að hljóma aðlaðandi, sefa reiði almennings með því að svara kalli um róttækar og umsvifalausar breytingar, eru hér miklir hagsmunir lagðir að veði. Við Íslendingar eigum nefnilega stjórnskipun sem í öllum meginatriðum er skýr, jafnvel þótt texti stjórnarskrárinnar sjálfrar kunni í sumum tilvikum að vera gamall og lítt aðgengilegur.“

Af framsögu hæstv. forsætisráðherra hér á föstudaginn mátti ráða að mikill ávinningur væri að því að þingfulltrúar á stjórnlagaþingi væru kosnir beinni kosningu. En með því er verið að sniðganga Alþingi, sem kosið er beinni og lýðræðislegri kosningu af þjóðinni. Í stað þess að 63 þingmenn kosnir af þjóðinni vinni nýja stjórnarskrá eiga nú 104 einstaklingar að vera á launum hjá ríkinu næstu tvö árin við löggjafarstörf, auk 20 áheyrnarfulltrúa sem reiknað er með að fái líka laun.

Ég tel nauðsynlegt að ræða ítarlega þær tillögur sem settar eru fram í frumvarpinu um stjórnlagaþingið og þann kostnað sem því er samfara. En í umræðunum í dag hefur komið fram að áætlað er að kostnaður við þetta verði einn og hálfur milljarður og tel ég að þetta muni veikja Alþingi Íslendinga. Einn og hálfur milljarður. Ég man ekki betur en að við höfum rætt hér fyrr í vetur um það að fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hafi náð niður lyfjakostnaði um einn og hálfan milljarð. Svo þarna er komin sama tala.

Í frumvarpi til stjórnlagaþings sem er fylgiskjal við frumvarp til stjórnarskipunarlaga, sem hér er til umræðu, kemur fram að verulegur kostnaður er samfara stjórnlagaþinginu en engir útreikningar fylgja frá fjármálaráðuneytinu eins og eðlilegt hefði verið.

Til dæmis segir í 20. gr. frumvarpsdraga um stjórnlagaþing:

„Forsætisnefnd stjórnlagaþings hefur heimild til þess, í samráði við forsætisráðuneytið, að stofna til útgjalda ríkissjóðs vegna þingsins sjálfs, svo sem vegna aðstöðu, starfsfólks eða sérfræðiráðgjafar.“

Þarna sýnist mér vera komin ansi víðtæk heimild til fjárútláta og verður fróðlegt að sjá áætlanir um það og útilokað annað en að þingnefndin kanni það rækilega.

Ég get alveg séð fyrir mér að boðað sé til stjórnlagaþings sem hafi það verkefni að verða Alþingi til ráðgjafar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það má líka alveg hugsa sér að starfstími Alþingis á næstu árum sé þannig skipulagður að sérstakur og rúmur tími gefist til umræðna um stjórnarskrárbreytingar og að sérstök þingnefnd verði sett á laggirnar í þessu sambandi. Það hefur oft verið rætt um að Alþingi gæti setið fleiri vikur á ári hverju en gert hefur verið á undanförnum árum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að ætla Alþingi og þingmönnum, sem eru fulltrúar þjóðarinnar, meiri tíma til að sinna þessu mikilvæga starfi Alþingis, að setja landinu nýja stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um nokkur efnisatriði frumvarpsins til stjórnarskipunarlaga sem hér er til 1. umr. Eins og komið hefur fram í máli mínu tel ég afar mikilvægt að gefa breytingum á stjórnarskránni nauðsynlegan tíma til umræðna og umfjöllunar hér í þinginu og í þingnefnd. Það mun augljóslega ekki gefast tími til þess á yfirstandandi þingi og því vaknar sú spurning hvað vaki fyrir hæstv. minnihlutaríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að ætlast til flýtiafgreiðslu á svona mikilvægum breytingum.

Það vekur líka athygli að um leið og gerð er tillaga um að boðað sé til sérstaks stjórnlagaþings sem á að endurskoða alla stjórnarskrána er um leið verið að leggja til breytingar á henni sem á að afgreiða með hraði. Í því er fólgin mikil mótsögn og spurning hvort hæstv. ríkisstjórn treysti þá ekki væntanlegu stjórnlagaþingi fyrir breytingunum, þá nefni ég t.d. ákvæðin um náttúruauðlindir.

Virðulegi forseti. Það er í raun alveg ótrúlegt við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu þegar heimilin í landinu og atvinnulífið bíða eftir raunhæfum aðgerðum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, að slíkt frumvarp sem hér er til umræðu skuli eiga að njóta forgangs, það er með ólíkindum. Vera má að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að takast á við þau vandamál sem brýnust eru og vilji þar af leiðandi taka tíma fyrir þetta. Ég er algjörlega ósammála forgangsröðuninni. Öll þau verkefni sem bíða okkar hér á landi í dag snúa að heimilunum í landinu og almenningur á heimtingu á að vita hver úrræðin eru sem minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er með á prjónunum. Það er undirstaða að atvinnulífið sé virkt og bankarnir starfi eðlilega til þess að heimilin gangi. Til þess þarf fólk að hafa vinnu og því er orðið mjög aðkallandi að vextir lækki í landinu svo að við horfum ekki upp á fleiri gjaldþrot fyrirtækja sem ganga dag frá degi enn á sitt eigið fé og berjast í bökkum til að halda störfum gangandi.

Eins og hv. þm. Geir H. Haarde gat um áðan í ræðu sinni var sú hugmynd uppi hjá fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að fara í þessa breytingu og vinnu um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Breytingin var áætluð á seinni hluta kjörtímabilsins 2009–2011 og átti þá að fara í slíka vinnu. Þá sjáið þið hvað sú ríkisstjórn hafði hugsað sér langan tíma í þá vinnu, tvö ár. Hæstv. ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ætlar að keyra þetta mál í gegn á nokkrum vikum. Ég er sammála öðrum sem hér hafa talað að þetta frumvarp á ekki að fara óbreytt í gegnum þingið. Ég tel að það séu ekki réttar aðstæður í þjóðfélaginu núna til þess að breyta stjórnarskránni.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að vitna aftur í grein Skúla Magnússonar lögfræðings sem ég las í Fréttablaðinu 4. mars sl. og fannst hún mjög góð.

Þar segir Skúli, með leyfi forseta:

„Það er engin góð ástæða til að rífa stjórnskipun Íslands upp með rótum við núverandi aðstæður þar sem stjórnvöld þurfa að setja sér skýr markmið til lengri og skemmri tíma — sum eflaust sársaukafull og misvinsæl — og hafa styrk og þol til þess að vinna að þeim. Við munum ekki leysa aðsteðjandi vandamál með breytingum á stjórnskipun Íslands.“

Enn fremur segir í greininni:

„Efnahagskreppa og stjórnskipuleg ringulreið eru slæmur kokteill, svo ekki sé sterkar tekið til orða.“

Hæstv. forseti. Við verðum að athuga það hér á hinu háa Alþingi að þessar breytingar mega ekki vera flýtiverkefni nýrrar ríkisstjórnar og það bráðabirgðaríkisstjórnar. Þó svo að miklar deilur hafi sprottið upp í þjóðfélaginu vegna bankahruns og annars, á að keyra þessar breytingar í gegn á örfáum dögum á hinu háa Alþingi. Er það miður að Alþingi skuli sýnt það tillitsleysi að keyra eigi þetta mál í gegn á svo stuttum tíma. (PHB: Og um nótt!)

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir þau mál og þær greinar sem mér fundust vera athyglisverðar og fannst að við yrðum að taka vel til greina. Ég segi enn og aftur að við megum alls ekki láta frumvarpið fara óbreytt í gegnum þingið, sérstaklega ekki vegna þess að ekki var lýðræðislega að þessu staðið þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn, með 26 þingmenn, var ekki hafður með í ráðum. Það sýnir það lýðræði sem býr í þeim flokkum sem fara með stjórn mála í landinu í dag að það skiptir þá engu máli hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er. En þannig hefur það verið, hæstv. forseti, í gegnum tíðina að samkomulag hefur ævinlega ríkt um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Þess vegna harma ég það nú að ekki skuli hafa verið haft samráð við stærsta stjórnmálaflokkinn um þetta mál.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta þetta verða mín síðustu orð hér og þakka fyrir.