136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

fundarstjórn.

[20:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sat fund formanna þingflokka þar sem fyrir var tekin ósk tveggja þingflokksformanna um að sú umræða um loftslagsheimildir sem hér var að ljúka yrði tekin á dagskrá. Það voru þingflokksformenn annars vegar Framsóknarflokks og hins vegar Sjálfstæðisflokks sem lögðu á það áherslu.

Sem fulltrúi þingflokks Vinstri grænna óskaði ég eftir því að umræðan yrði látin bíða fram yfir helgi þannig að hæstv. umhverfisráðherra gæti verið viðstödd. Við því var ekki orðið. Hins vegar varð niðurstaðan sú að umræðunni var frestað, henni lauk ekki fyrir helgi, til þess að hæstv. ráðherra gæti komið inn í hana eins og nú hefur gerst. Það er ekki að ráði okkar Vinstri grænna og það er ekki að ráði hæstv. ráðherra sem þetta mál ber svona að og ég vil ítreka það með þessum orðum mínum.