136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að bregðast við ósk minni um að hæstv. utanríkisráðherra kæmi til þessarar umræðu vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur sýnt henni áhuga í bloggskrifum sínum en hefur lítið sést hér í dag. Þannig að ég vildi gefa honum kost á að koma í umræðuna. Sérstaklega finnst mér rétt að hann fái tækifæri til að biðjast afsökunar á ummælum sem komu fram á bloggi hans í kvöld, biðja þingið og þingmenn afsökunar á rangfærslum sem komu fram í bloggi hans, þegar hann fullyrðir að umræður um stjórnarskrármálið hafi tafið fyrir mikilvægum málum frá ríkisstjórninni og honum sérstaklega. Hann nefnir Helguvíkursamninginn. Við buðum að Helguvíkursamningurinn yrði tekinn fyrir á undan stjórnarskrármálinu. Hann nefnir raforkulög, sem voru lögð fyrir þingið í gær og má ekki taka fyrir fyrr en á morgun. Hann nefnir endurgreiðslukostnað við kvikmyndagerð. Það sama gildir um það, það frumvarp var lagt fram í gær og ekki má taka það á dagskrá fyrr en á morgun. Hann nefnir fjölgun manna á listamannalaunum. (Forseti hringir.) Það frumvarp er ekki komið fram. Hann nefnir líka frumvarp um nýsköpunarfyrirtæki, það er ekki komið fram þannig að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra biðjist afsökunar á þeim rangfærslum sem hann hefur í málgagni sínu á (Forseti hringir.) blogginu.