136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég virði þingið og vil gera allt sem þingið vill. Ég ætla að biðja Sjálfstæðisflokkinn afsökunar. Ég ætla að biðja hann afsökunar á því að ég komst ekki hingað í kvöld þegar hv. þm. Birgir Ármannsson vildi fá mig hingað til að hlýða á mál sitt. Ástæðan var því miður sú að ég sat í ráðuneyti mínu að störfum og hafði slökkt á símanum mínum ella hefði ég brugðið við hið fyrsta og komið hingað til að hlýða á skammir og ásakanir hv. þingmanns.

Af hinu sem ég skrifaði á bloggið mitt, það er allt saman rétt sem þar stendur. (BÁ: Haugalygi.) Sjálfstæðisflokkurinn stendur hérna í heldur barnalegu málþófi sem miðar bara að því að (BÁ: Svaraðu efnisatriðunum.) tefja tímann og koma í veg fyrir að ríkisstjórnin nái málum sínum á dagskrá. Það er allt í lagi, það er réttur stjórnarandstöðunnar að beita málþófi þó að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi manna harðast mælt gegn þeim rétti.

Hitt er svo annað sem þeir verða að gera upp við sjálfa sig hvort þeir vilja mjög lengi koma í veg fyrir það að hv. þm. Mörður Árnason geti átt orðastað við mig um Helguvík.