136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú ætla ég að bjóða hæstv. utanríkis- og iðnaðarráðherra upp á það að við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir því að á morgun verði fjárfestingarsamningurinn um Helguvík tekinn á dagskrá, fyrst á dagskrá, svo við getum rætt það mál við hæstv. iðnaðarráðherra og við hv. þm. Mörð Árnason, sem mig grunar að sé harður andstæðingur þess máls.

Ég ætla að biðja hæstv. utanríkisráðherra að fara varlega í að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn í því að ræða vandlega um stjórnarskrá lýðveldisins vegna þess að ekki er lengra síðan en 9. mars 2007 sem hæstv. utanríkisráðherra lét eftirfarandi orð falla:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“ — Fyrir tveimur árum var þetta sagt þegar fjallað var um stjórnarskrána.

Það er einmitt það sem við erum að gera, (Forseti hringir.) við erum að fjalla vandlega um stjórnarskrána og af ábyrgð. (Forseti hringir.) Það ætti hæstv. ráðherra að gera frekar en að sitja fyrir framan (Forseti hringir.) tölvuna sína í iðnaðarráðuneytinu eða utanríkisráðuneytinu og (Forseti hringir.) skrifa þar palladóma um okkur sjálfstæðismenn.