136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:22]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja mikilvægt á þeim krepputímum sem við lifum að það skuli þó vera einn stjórnmálamaður sem getur fengið þjóðina til þess að brosa aðeins að þeim sérkennilegu og furðulegu skrifum sem hann setur fram, sem að vísu standast ekki neinar staðreyndir sem hann fer með um að eitthvað hafi tafið margt af þeim mætu málum sem hann ber fyrir brjósti, staðreyndin er að það hefur ekki neitt gert það.

Ég verð að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að gefa mér einkunnarorð eins og tundurspillaforingi og skæruliðaforingi. Ég velti fyrir mér hvort það komi næst á bloggi hæstv. utanríkisráðherra að Bretar hafi beitt neyðarlögunum vegna málþófs Jóns Magnússonar á Alþingi, en það er þá kannski nokkuð seint fram komið. Ég verð að segja, hæstv. utanríkisráðherra, að hér er hallað réttu máli svo vægilega sé til orða tekið.