136. löggjafarþing — 98. fundur,  10. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:24]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu sem hér fór fram milli manna heldur fara frá minni hlið yfir það mál sem er á dagskránni og ræða það efnislega sem í frumvarpinu stendur.

(Forseti (KHG): Forseti biður ræðumann forláts en hann vill biðja hv. þingmenn í salnum að gefa ræðumanni betra hljóð.)

Í fyrsta lagi vil ég víkja að frumvarpinu eins og það er uppsett með því að benda á að í því eru þrjár tilteknar breytingar og síðan má eiginlega segja að þar til viðbótar komi svo greinin um stjórnlagaþing, sem ég hef svo sem heyrt í ræðum manna að þeir hafi kannski talsvert við að athuga að það skuli vera í frumvarpinu, þ.e. að á sama tíma og verið er að leggja til breytingar á stjórnarskránni skuli einnig vera fjórða atriðið í málinu, þ.e. sérstakt stjórnlagaþing, sem ætlað er að breyta stjórnarskránni og endurskoða hana.

Það er alveg rétt sem iðulega hefur komið fram í máli manna að oft og iðulega hefur verið starfað að því að skoða ýmsa þætti stjórnarskrárinnar. Sá sem hér stendur hefur tekið þátt í því að vera í slíkum nefndum og starfshópum. Það er vissulega svo að ýmislegt er í stjórnarskránni sem þarf lagfæringar við.

Ég verð samt að segja, hæstv. forseti, að ég tel að þau þrjú atriði sem hér er verið að breyta séu mjög veigamikil atriði og mikill ávinningur sé að því, hæstv. forseti, að reyna að ná þeim í gegnum þingið og vissulega væri best að það væri gert í sem mestri sátt. Menn hafa á undanförnum árum rætt þessi mál vítt og breitt eins og ég gat um. Þeir sem hafa starfað í starfshópum og nefndum hafa að þó nokkru leyti verið sammála þessum þremur efnisgreinum, þ.e. ákvæðið um þjóðareign og náttúruauðlindir í þjóðareign o.s.frv. og að ekki megi láta þær varanlega af hendi heldur sé eingöngu um það að ræða að afhenda mönnum nýtingarrétt á þeim náttúruauðlindum sem menn líta á sem þjóðareign.

Hæstv. forseti. Rökin fyrir þjóðareign höfum við reyndar í löggjöf okkar að því er varðar Þingvelli en þar segir eitthvað á þá leið ef mig brestur ekki minni að Þingvellir skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og Alþingi fari með þann rétt og ekki megi láta hann af hendi um ókomin ár. Ég held að þetta sé efnislega það sem það ákvæði segir þó að þetta sé ekki orðrétt haft eftir en finna má þá tilvitnun orðrétta í greinargerð með frumvarpinu.

Í frumvarpinu kemur fram að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Ég hef bent á, þó að ég sé einn af flutningsmönnum málsins, að menn eru ekki endilega alveg nákvæmlega sammála um hvernig beri að skilgreina orðin „sjálfbær þróun“ þó að sagt sé í greinargerðinni með frumvarpinu að þetta ákvæði, sjálfbær þróun, hafi verið skilgreint með því að þar sé átt við þróun sem fullnægi þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja þörfum sínum.

Mér finnst orðin sjálfbær þróun vera túlkuð með dálítið mismunandi hætti í umfjöllun á veraldarvísu, þó að hér hafi verið farið með texta sem Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur lagt upp með þar sem þetta hugtak var skilgreint með þessum hætti.

Ég held, hæstv. forseti, að það væri alveg þess virði að skoða önnur orð í staðinn fyrir orðin „sjálfbær þróun“ sem gætu algjörlega farið saman við þá hugsun sem mér finnst menn vera að reyna að setja fram með þessum orðum. Ég tel að það gæti verið orðið framtíðarhagsmunir, sem sagt framtíðarhagsmunir til hagsældar fyrir íslensku þjóðina og komandi kynslóðir. Því að vissulega ætla menn sér að nýta náttúruauðlindirnar, líka þær náttúruauðlindir sem í sjó eru, líffræðilegar náttúruauðlindir með framtíðarhagsmuni til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Ég hygg að menn geti ekki deilt um það. En af að því að hugtakið sjálfbær þróun er nú notað á heimsvísu og menn túlka það á mismunandi hátt væri kannski rétt hjá okkur, af því að við erum að tala um okkar eigin stjórnarskrá, að skoða það sérstaklega í nefndinni þegar þetta frumvarp um stjórnarskipunarlög fer til nefndar hvort við séum ekki alveg að ná þeirri hugsun sem við viljum ná með orðunum sem ég nefndi hér, þ.e. framtíðarhagsmunir til hagsældar fyrir íslensku þjóðina og komandi kynslóðir.

Ég segi þetta eingöngu vegna þess að ég tel mig vita að mismunandi skilningur er lagður í orðin sjálfbær þróun vítt og breitt um heiminn, en ef menn geta sýnt fram á að sá skilningur sé alveg klár á milli þjóða er ég auðvitað tilbúinn að skoða það.

Ég tel mjög mikilvægt að sett verði inn í stjórnarskrána að náttúruauðlindir séu þjóðareign og það sé hagur þjóðarinnar að eiga þessar auðlindir og að á þessari þjóðareign, náttúruauðlindum, sé eingöngu nýtingarréttur en ekki réttur sem tengist sölu eða hægt sé að láta varanlega af hendi. Ég er því algerlega sammála efnisákvæðum í 1. gr. hvað þetta varðar.

Ég hef ævinlega talið, t.d. ef við tölum um sjávarauðlindina, fiskstofnana, að íslenskir útgerðarmenn hefðu aldrei nokkurn tímann átt að fá neitt annað en nýtingarrétt, aldrei leigu-, sölu- eða veðsetningarrétt. Ég tel að það hafi orðið þjóðinni til mikils skaða að þeir skuli hafa fengið þann rétt að geta selt nýtingarréttinn sem þeim var úthlutað, þ.e. aflahlutdeildina, veðsett hana og komið þar af leiðandi sjávarútveginum í þær óhemjuskuldir sem hvíla á sjávarútveginum í dag og síðan gert aðra að leiguliðum sínum vegna þess að þeir notuðu þetta andlag sem þeim var fengið til notkunar til að gera aðra að undirsátum sínum og láta greiða sér afgjald fyrir atvinnuréttinn.

Ég tel, hæstv. forseti, að við séum á réttri leið með því að marka þá hugsun að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og þær verði aldrei seldar eða látnar varanlega af hendi. Það er í raun og veru í samræmi við ákvæðið um Þingvelli en það kveður mjög skýrt á um að Þingvellir verði aldrei seldir og verði ævinlega eign íslensku þjóðarinnar. Ég tel að það sama eigi í raun og veru að gilda um náttúruauðlindir okkar.

Þetta vildi ég láta koma fram um 1. gr. og tel þess vegna að það skipti verulegu máli að koma þessu ákvæði inn í stjórnarskrána um náttúruauðlindirnar og framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að því leyti til.

Um 2. gr. er það að segja að ég hef ævinlega verið sammála því þegar verið er að breyta stjórnarskrá og Alþingi hefur samþykkt tillögur þar að lútandi, að þær breytingar skuli bornar sérstaklega undir atkvæði allra kosningabærra manna, að við greiðum atkvæði um stjórnlagabreytingar en kjósum ekki um það samhliða öðrum kosningum þar sem við deilum um margs konar aðra hluti. Þess vegna held ég að þetta sé einnig mjög mikilvægt ákvæði og tel þess vegna mjög réttlætanlegt að reyna að koma því inn í stjórnarskrána, m.a. til þess þjóðin muni ævinlega í framtíðinni taka sjálf afstöðu til breytinga á stjórnarskránni með beinni atkvæðagreiðslu. Og hér er sagt að a.m.k. 25 af hundraði kjósenda á kjörskrá þurfi að samþykkja slík mál og ég hygg að það megi ekki vera minna en ætti alveg að duga. Ég tel alla vega ekki eðlilegt, hæstv. forseti, að þeir sem vilja sitja heima ráði því hvernig lög skipast á Íslandi. Það á ekki heldur við í Alþingi, þeir sem ekki vilja sitja fundi hér og afgreiða mál ráða því ekki hvernig lög eru sett. Það á ekki heldur að vera svo hjá þjóðinni. Ef þjóðin hefur ekki vilja til þess að afgreiða mál verðum við að setja einhvern lágmarksramma og hann er settur hérna miðað við 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá og ætti það að tryggja, alla vega eins og form hefur skipast hér á landi um atkvæðagreiðslur, yfir 50% þátttöku í kosningum.

Ég ítreka það viðhorf mitt að ég tel að þeir sem sitja heima og vilja ekki mæta á kjörstað eigi ekki að geta fengið að ráða niðurstöðu mála. Sú kvöð á að vera á Íslendingum að þeir fylgi eftir sannfæringu sinni með því að taka afstöðu til mála og með því að mæta á kjörstað en geti ekki ráðið niðurstöðum með því að sitja heima.

Þetta var svona almennt um 2. gr. og ég held að það væri miklu betra fyrirkomulag í framtíðinni ef þetta er með þeim hætti sem hér er lagt upp með.

Um 3. gr. Ég hef ævinlega verið talsmaður þess og hef talað fyrir því á fundum í stjórnarskrárnefnd, á ráðstefnum sem fyrrum stjórnarskrárnefnd hélt, m.a. á stórri ráðstefnu á Hótel Loftleiðum, að setja beri ákvæði um að ákveðið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að um tiltekin lög eða tiltekin málefni væru greidd atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér er sett inn að 15 af hundraði kjósenda geti krafist þess. Ég held að það sé alveg ásættanlegt ákvæði um það að þjóðin geti, ef hún hefur vilja til, fengið að taka afstöðu til ákveðinna mála í atkvæðagreiðslu. Ég lýsi mig hlynntan því að slíkt lýðræði verði innleitt á Íslandi. Hér er einnig sett inn ákvæði um að þó skuli minnst 25 af hundraði allra kjósenda á kjörskrá vera fylgjandi tillögu sem borin er upp. Loks eru settir fyrirvarar um að um sum löggjafarefni geti þjóðin ekki krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og þar eru talin upp lög eins og fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðarréttarskuldbindingum.

Ég held, hæstv. forseti, að þessar þrjár greinar sem virkilega taka til þess sem lýtur að stjórnarskránni séu um málefni sem við ættum algerlega að geta komið í gegnum þingið með sæmilegum sáttavilja. Ég heyrði það í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan að hann tók t.d. undir efni 2. gr. í málflutningi sínum. Ég tel að þau skref sem hér er lagt til að taka í þessum þremur greinum eigi alveg sérstaklega að fá að fara í gegn á þessu þingi og verða að lögum.

Ég verð hins vegar að viðurkenna, hæstv. forseti, að um stjórnlagaþingið geta menn vissulega haft meiningar og rök með og á móti. Þó að ég hefði talið æskilegt að klára lagasetningu um stjórnlagaþing og að það verði tekið til sérstakrar umfjöllunar í nefnd hvernig því beri að koma fyrir, hvort menn vilji hafa fulltrúana 41, 31 eða 21. Ég tel að nefndin hafi algerlega frjálsar hendur til þess að skipa þeim málum eins og henni sýnist að þessu leyti til. Fyrst og fremst er bara atriði að setja löggjöf um það hvernig stjórnlagaþingið á að vinna, hvenær það á að hefja störf o.s.frv. Það skiptir máli. Samt er vel hægt að viðurkenna það, hæstv. forseti, að hægt er að færa skynsamleg rök fyrir því að við gætum alveg eins sett lögin um stjórnlagaþing á vorþingi eftir kosningar. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Ég held að það megi alveg ræða þá hlið málsins. Ég styð það hins vegar að við reynum að taka stjórnlagaþingsmálið líka og klárum það, ég tel skynsamlegt að gera það núna í þessari meðferð málsins og þess vegna er ég flutningsmaður að málinu eins og það liggur fyrir. Ég tel að það sé til bóta og skipti verulegu máli að við náum fram þessum breytingum, sem við höfum vissulega talað um í mörg ár, hæstv. forseti, í ýmsum nefndum og starfshópum um stjórnarskrá, og um mörg fleiri mál.

Ég get nefnt nokkrar tillögur sem ég flutti í stjórnarskrárnefndinni og á sérstakri ráðstefnu um stjórnarskrármálefni sem ég gat um áður úti á Loftleiðum. Til dæmis að tveir fimmtu þingmanna, 40% þingmanna gætu ævinlega ákveðið að vísa ákveðnum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég nefndi þar ákvæðið um skipan hæstaréttardómara, þar sem ég taldi eðlilegt að þó svo að dómsmálaráðherra auglýsti eftir hæstaréttardómurum og tilnefndi á endanum nafn þá væri það þingið sjálft sem skyldi staðfesta skipun hæstaréttardómara með tveimur þriðju hlutum atkvæða þingmanna. Ég vék að mörgum fleiri atriðum í sambandi við stjórnarskrármálefni á þeim árum sem ég starfaði í stjórnarskrárnefndinni og á þeim fundum og ráðstefnum sem haldnar voru um þau málefni, enda málið eðlilega til mikillar skoðunar og yfirvegunar.

Um þessi þrjú atriði var mikið talað í stjórnarskrárnefndinni, um auðlindirnar í þjóðareign, um rétt fólks til að kjósa beint um stjórnarskrárbreytingar og um rétt ákveðins hluta kosningabærra manna til að fá fram mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við getum alveg nefnt einhver mál í því sambandi, hæstv. forseti. Ég man t.d. að á fundi á Akranesi nýverið sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra að það væri að sjálfsögðu eðlilegt að taka ákvörðun um hvalveiðar m.a. með tilliti til þess að 70% þjóðarinnar hefðu iðulega lýst stuðningi við hvalveiðar og menn ættu auðvitað að taka mið af vilja þjóðarinnar.

Með sama hætti mundi ég segja, hæstv. forseti, að það væri sjálfgefið að taka ætti mið af vilja þjóðarinnar varðandi íslenska kvótakerfið, eins umdeilt og það er, þar sem 60–80% þjóðarinnar hafa hafnað því árum saman í skoðanakönnunum. Og með alveg sömu rökum og hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra talaði um afstöðu þjóðarinnar til hvalveiða og taldi það rök fyrir því að leyfa hvalveiðar ætti þjóðin auðvitað að fá að segja álit sitt á hinu framseljanlega kvótakerfi.

Hæstv. forseti. Ég vona að ég hafi skýrt afstöðu mína til þessa máls á málefnalegan hátt og lýst því sem mér finnst til bóta varðandi málið og einnig því sem vissulega má hafa einhverjar efasemdir um varðandi verklag og ákvarðanir. En ég tel og það er niðurstaða mín — og þess vegna er ég flutningsmaður að þessu máli og minn flokkur styður það — að það nái fram að ganga sem hér er lagt upp með og við teljum, hæstv. forseti, að það þjóni heildarhagsmunum þjóðarinnar að ganga svo til verka sem hér er lýst.