136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka Evrópumálin á dagskrá. Hv. þingmaður vísar til skoðanakönnunar og það er auðvitað viðtekin venja þegar skýr vilji birtist í skoðanakönnun hjá þjóðinni að stjórnmálaflokkarnir vilja þá fara í kjölfarið og skerpa á áherslum sínum í samræmi við það sem birtist í niðurstöðum slíkra kannana.

Hér er spurt um afstöðu mína. Ég hef ávallt verið mikill efasemdarmaður þess að við gætum náð ásættanlegum samningum í viðræðum við Evrópusambandið. Núna er Sjálfstæðisflokkurinn að vinna að endurnýjuðu hagsmunamati. Afstaða Sjálfstæðisflokksins hefur ávallt byggst á hagsmunamati og niðurstaða okkar hefur verið sú að heildarhagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Ég hef talað fyrir því að það væru a.m.k. tvær gildar ástæður fyrir því að endurnýja þetta hagsmunamat. Annars vegar er það óstöðugleikinn hér í gengismálum og við höfum mikla þörf fyrir endurnýjaða peningamálastefnu. Hins vegar tel ég að það séu gildar ástæður fyrir okkur að taka til umfjöllunar stöðu okkar í samfélagi þjóðanna eftir brotthvarf varnarliðsins og vegna þeirra hræringa sem eru að gerast á vettvangi NATO í Evrópusambandinu í öryggis- og varnarmálum. Þetta gefi okkur tilefni til þess að endurnýja nú hagsmunamatið.

Ég er jafnframt talsmaður þess að næstu stóru skref í þessu efni verði tekin í góðu samráði í fyrsta lagi stjórnmálaflokkanna á Alþingi og mundi vilja láta reyna á það hvort samstaða gæti tekist um þau skref í góðri sátt milli stjórnmálaflokkanna í þinginu. Ég er líka mjög ríkur talsmaður þess að á endanum verði það þjóðin sem fari með síðasta orðið í þessu máli, enda er það mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Það er umfjöllunarefnið í tilnefndri grein frá því í desember sem ég fagna að hv. þingmaður hefur nú loks (Forseti hringir.) lesið. Ég stend við allt sem þar segir.