136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:06]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku eða þann 26. febrúar svaraði utanríkisráðherra fyrirspurn um hvort hann hafi látið kanna lögfræðileg rök fyrir því hvort Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-ábyrgðir og hver sé þá niðurstaðan af því. Hæstv. utanríkisráðherra sagði þá að það séu þungvæg rök sem segi að þjóðin eigi að borga Icesave-reikningana, en það er svolítið merkilegt að það virðist vera trúnaðarmál samkvæmt svari ráðherra hvaða lögfræðilegu rök þetta eru. Þess vegna fær hvorki þingheimur né þjóðin að sjá þessar álitsgerðir eftir því sem mér skilst.

Það var ein helsta krafan í búsáhaldabyltingunni að hér yrði opin stjórnsýsla og því vekur það nokkra furðu að ekki sé hægt að fá fram þessar álitsgerðir. Það vekur líka nokkra furðu sem kom fram að tveir virtir lögfræðingar hafa rökstutt það með mjög svo sannfærandi hætti að í ljósi þess að Íslendingar stofnuðu til þessara innstæðureikninga beri þeim ekki skylda til að ríkið taki við þegar ábyrgð tryggingarsjóðsins þrýtur. Mér finnst eðlilegt að þingheimur og þjóðin öll fái þessar álitsgerðir í hendur svo hægt sé að bera saman þessi ólíku álit sem fram hafa komið. Mér þætti vænt um af því að hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra er í salnum að hann tjái sig um þetta mál líka.