136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við erum í rauninni að ræða um tvö mál og ég vildi gjarnan tala um þau bæði en ég ætla að takmarka mig við ESB.

Mér finnst ekki rétt að menn fari svona í bónorð í gamni, segi t.d. við konuna: Ég skal giftast þér þegar þú verður stærri og grennri og menntaðri o.s.frv., bláeyg ef hún er brúneyg o.s.frv. Mér finnst furðulegt að menn hafi trú á því að lítil þjóð norður í hafi geti breytt reglum Evrópusambandsins. Mér finnst það alveg furðulegt. Ég vil að þjóðin greiði atkvæði um það hvort hún eigi yfirleitt að sækja um, hvort hún vilji sækja um og þá þurfa menn fyrst og fremst að horfa til þess: Hvernig verður Evrópusambandið eftir 50 ár? Hvernig er það að þróast? Mér segir svo hugur að það sé að þróast mjög hratt í átt til ríkis. Og Ísland verður þá eins og smáhreppur í risaríki með nákvæmlega sömu áhrif og smáhreppur í risaríki. Engin. Það verður enginn skilningur á högum Íslendinga frekar en þegar við vorum keyrð í kaf með Icesave-reikningunum fyrir nokkrum mánuðum, það verður enginn skilningur á hag Íslendinga. Við Íslendingar höfum dapra 500 ára reynslu af því að vera í tengslum við þjóð suður í Evrópu og voru þó Danir örugglega ekki vont fólk, örugglega ekki. Þeir höfðu bara engan skilning á högum Íslendinga. (VS: Hefur heimurinn ekkert breyst?) Heimurinn hefur vissulega breyst mikið en þeir í Brussel hegðuðu sér ekkert skár en Danir gerðu gagnvart Íslendingum þegar þeir fóru í stríð við Íslendinga út af Icesave-reikningunum.