136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna ítrekuðum yfirlýsingum hv. þm. Bjarna Benediktssonar, verðandi formanns Sjálfstæðisflokksins að vonum, um að rétt sé að sameina stjórnmálaflokkana um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, láta reyna á þá kosti sem þar bjóðast og leggja svo í dóm þjóðarinnar. Á ögurstundu í lífi þjóðar er það skylda forustumanna hennar að láta reyna á þá kosti sem henni bjóðast og ég hygg að það sýni leiðtogahæfileika hv. þingmanns að geta hafið sig yfir skotgrafir flokkastjórnmálanna og tekið þessa afstöðu.

Við þurfum á því að halda nú sem aldrei fyrr að senda heiminum skýr skilaboð um að við tökum okkar stöðu grafalvarlega og munum fordómalaust kanna allar þær helstu leiðir sem okkur standa til boða til að tryggja íslenska hagsmuni. Ég hvet hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Sigurð Kára Kristjánsson til að láta 6. október sl. verða til þess að gleyma þessum gömlu ræðum um Evrópusambandið, þessu kasti manna hver í annan og áróðri á báða bóga — ég held satt að segja að sá málflutningur sé ekki ýkja málefnalegur og færa megi sterk rök fyrir því að einangrunarhyggja okkar hafi á endanum leitt okkur í ógöngur. Ég held að það geri þá kröfu til allra manna á Íslandi að þeir endurskoði nokkuð þá afstöðu sem þeir hafa haft og ræði af víðsýni og umburðarlyndi um það með hvaða hætti skynsamlegast sé til framtíðar að við tengjumst öðrum þjóðum, nágrannaþjóðum okkar í Evrópu, og högum samvinnu okkar við þær. Í því eiga menn ekki að hafa upp upphrópanir eða sleggjudóma eins og mér þótti gæta nokkuð í málflutningi hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Sigurðar Kára Kristjánssonar.