136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

aðildarumsókn að ESB -- Icesave.

[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Íslendingar höfðu komið upp innlánstryggingarkerfi algjörlega í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins. Það kom í ljós að þessi reglugerð Evrópusambandsins var gölluð, hún var meingölluð. Hún réði ekki við það þegar 80% af fjármálamarkaðnum fór á hausinn. Þess vegna ætlar Evrópusambandið að keyra íslenska þjóð í fátækt.

Að láta sér detta í hug að menn geti tekið upp evruna eftir að þeir eru gengnir inn í Evrópusambandið, Íslendingar munu ekki uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrr en eftir hugsanlega áratug og þá gætum við hugsanlega tekið upp evruna.

Svo vil ég benda á það að Evrópusambandið fer létt með það að breyta reglum eftir á. Það er jú að þróast í átt til ríkis og það mun breyta reglum þannig að auðlindir okkar í sjávarútvegi verði eign Evrópusambandsins, auðlindir okkar í orkumálum verði eign Evrópusambandsins o.s.frv. Það er mjög líklegt að þetta gerist vegna þess að það verður einhvern tímann orkuskortur og þá þurfa þeir orkuna frá Íslandi.

Ég vil benda á það að Sjálfstæðisflokkurinn heitir Sjálf-stæðis-flokkur. Ég er ekki viss um að sjálfstæðismenn vilji afsala sér fullveldi Íslands. Ég segi já við fullveldi Íslands en ég segi nei við aðild að Evrópusambandinu.