136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

uppbygging samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

353. mál
[12:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. samgönguráðherra um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Til margs er að líta þegar kemur að þeim, ekki aðeins hvaða verkefni eru í gangi og hvar þau standa heldur er alveg ljóst að þetta tengist mörgum öðrum þáttum og þá er ég sérstaklega með í huga umferðaröryggismálin.

Ég hef áhuga á því, ef hæstv. samgönguráðherra hefði tækifæri til að minnast líka á atriði eins og það hvort gert hefur verið umferðarmódel eða flæðilíkan af höfuðborgarsvæðinu í heild sinni. Sömuleiðis hvort uppi séu áætlanir um úrbætur á helstu æðum, sérstaklega Miklubraut og Kringlumýrarbraut, til að auka afkastagetu með því að koma á fríu flæði umferðar með mislægum gatnamótum.

Jafnframt hef ég áhuga á svifryksmengunarmálum. Þar er mjög margt hægt að gera þegar kemur að umferðarmálum. Það væri fróðlegt, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherra hefði möguleika á að upplýsa hvaða gæðakröfur eru gerðar til styrkleika þess malbiks sem notað er á helstu umferðaræðar, hvort notaðir séu viðurkenndir Evrópustaðlar fyrir malbik á höfuðborgarsvæðinu og hvort helstu götur séu þrifnar reglubundið á svipaðan hátt og í nágrannalöndunum eða hvort einungis sé reynt að binda rykið eins og fram hefur komið í fréttum. Og síðan, hvaða kröfur eru gerðar um bindingu jarðefna á vinnusvæðum og þrif á tækjum áður en þau fara á umferðargötur og um yfirbreiðslur á farmi sem getur myndað ryk?

Þessu tengist auðvitað líka spurningin hvort gert hafi verið mat á kostnaði heilbrigðiskerfisins annars vegar og samfélagsins í heild hins vegar af völdum umferðarslysa og hvað líði stefnu stjórnvalda til fækkunar umferðarslysa og hvernig miði í því efni samkvæmt umferðaröryggisáætlun sem við þekkjum.

Og loks varðandi samgöngumannvirkin á höfuðborgarsvæðinu, er hugað sérstaklega að því með tilliti til umferðaröryggis og þá er ég að vísa til ljósastaura, umferðarljósa, girðinga, brúarstöpla, skorts á vegriðum o.s.frv. og er í gangi sérstök áætlun til lagfæringar á slíkum stöðum?

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta mál upp hér, virðulegi forseti, er margþætt. Ég tel aldrei brýnna en einmitt við núverandi aðstæður að við gerum góðar áætlanir hvað þetta varðar, ekki aðeins í uppbyggingu á þessum arðbæru framkvæmdum heldur að við horfum líka til umferðaröryggisins, því að við gleymum oft að eitt stærsta heilbrigðisvandamálið er umferðarslysin og því er mjög mikilvægt að við vinnum skipulega að því að fækka þeim. Það hefur verið gert í öðrum löndum með góðum árangri.