136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

uppbygging samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.

353. mál
[12:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tek undir með hv. þm. Herdísi Þórðardóttur þegar kemur að umferðarmálum á Kjalarnesi. Sá vandi sem þar er er algjörlega vanmetinn, hann hefur ekki verið jafnmikið í umræðunni og vandinn á ýmsum öðrum stöðum en þar eru hættur sem við þurfum að taka á.

Ég lít svo á að þetta sé eitt alstærsta verkefnið hjá okkur núna og afskaplega mikilvægt að við vöndum til verksins. Þess vegna kom ég líka með þær spurningar sem ég spurði hér vegna þess að á þessu máli eru margar hliðar. Þetta snýst ekki bara um að byggja umferðarmannvirki, þetta snýst um að geta náð ákveðnum árangri með því að hafa ákveðin prinsipp í gangi, þ.e. hreyfanleg umferð, hagkvæm umferð, hrein umferð, hindrunarlaus umferð, hljóðlát og hættulaus umferð. Þetta hljómar kannski eins og þetta sé óyfirstíganlegt en því fer víðs fjarri.

Ég legg áherslu á að notuð séu umferðarmódel, flæðilíkan á höfuðborgarsvæðinu þegar menn hanna þessa hluti. Ég veit, bæði sem borgarfulltrúi og þingmaður, að það hefur vantað upp á slíkt og það er mjög mikilvægt að við vinnum þetta með þeim hætti. Umferðarmálin á höfuðborgarsvæðinu hafa því miður oft og tíðum mætt afgangi. Menn hafa verið að skipuleggja hér ýmis svæði þar sem umferðarmálin hafa mætt afgangi og ég tel okkur hafa gert mikil mistök á mörgum sviðum. Núna eru ákveðnir tappar sem við verðum að losa um. Það snýr að mörgu, það snýr að því að umferðin gangi örugglega fyrir sig, það snýr líka að mengunar- og umhverfismálum. Ég tel að við eigum að ræða þetta sérstaklega í þinginu, þ.e. samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu, og við ættum að taka góðan tíma í það, því að þetta er víðfeðmur málaflokkur sem varðar ekki bara hagsmuni okkar sem búum á svæðinu heldur hagsmuni allra Íslendinga.