136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

sjálfkrafa skráning barna í trúfélag.

374. mál
[13:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra fyrir svarið sem hún hefur hér gefið við fyrirspurn minni og lýsi mig sammála því enda kom afstaða mín fram í fyrri ræðu minni. Ég er sammála því að full ástæða sé til að endurskoða þetta ákvæði og fagna því að hæstv. ráðherra lýsi því yfir hér að hafin verði endurskoðun á því.

Ég er enn fremur sammála því að í þessu efni eigi hagsmunir barnsins fyrst og fremst að vera í fyrirrúmi, það á að hafa þá að leiðarljósi við endurskoðun ákvæðisins. Ég er í raun og veru sammála niðurstöðu lögfræðings Jafnréttisstofu um að ekki sé að sjá að neinir sérstakir hagsmunir séu fyrir nýfætt barn að vera skráð í trúfélag strax við fæðingu. Í mínum huga eru a.m.k. ekki sjáanlegir neinir slíkir hagsmunir en það er fagnaðarefni að yfir þetta verður farið í ráðuneyti dóms- og kirkjumála og þá væntanlega haft samráð um það við þá hagsmunaaðila sem þar kunna að vera til staðar, þó að kannski sé erfitt að finna beina hagsmunaaðila fyrir nýfædd börn í sjálfu sér nema ef vera skyldi foreldrar þeirra og erfitt er að nálgast þá sérstaklega sem almennan hóp. Þar kemur auðvitað væntanlega til umboðsmaður barna, svo dæmi sé tekið, og Jafnréttisstofa og kannski fleiri aðilar eftir atvikum.

Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svörin og fagna þeirri niðurstöðu hennar að endurskoðun verði hafin á málinu og vænti þess að eitthvert frumvarp þar að lútandi geti þá litið dagsins ljós áður en mjög langt um líður.