136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

sjálfkrafa skráning barna í trúfélag.

374. mál
[13:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir við svari mínu. Ég vil aðeins fá að fara nánar út í það hvað ég tel að þurfi frekari skoðunar við. Vitaskuld er mjög mikilvægt að Jafnréttisstofa hafi gefið álit sitt út frá jafnréttislögum en ég tel að líka þurfi að skoða þá fullyrðingu Jafnréttisstofu að ekki sé að sjá að neinir hagsmunir séu, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag og ég held að það þurfi að skoða út frá fleiri sjónarmiðum en jafnréttislegum. Geta einhver siðferðisleg, þjóðfélagsleg eða uppeldisleg sjónarmið hugsanlega legið að baki því að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag? Ég segi ekki að það sé endilega svo en ég held að þetta þurfi að skoða í þessu víða samhengi og það var til grundvallar afstöðu minni.