136. löggjafarþing — 99. fundur,  11. mars 2009.

fjöldi starfsmanna í umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun.

377. mál
[13:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar er m.a. sá mikli vöxtur sem orðið hefur í laga- og reglugerðaumhverfi á vettvangi umhverfismála. Að sumu leyti er það talið vera hamlandi í uppbyggingu atvinnulífs og talið af samtökum og aðilum á vinnumarkaði að það sé mjög mikilvægt að við förum í einföldun á þessum reglum. Ég vísa þar m.a. til yfirlýsinga frá síðasta þingi ASÍ. Þetta kom einnig fram þegar rætt var um mat á stóriðjuframkvæmdum í Þingeyjarsýslum. (MÁ: Er þá verið að tala bankana?)

Við höfum líka verið að ræða núna í umhverfisnefnd náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013 og í umræðunni um þau mál kemur fram að það er heilmikil viðbót og heilmikil aukning frá þeirri náttúruverndaráætlun sem gilti fyrir árin 2004–2008. Í umræðu innan nefndarinnar hefur einnig komið fram að það er aðeins einu verkefni lokið varðandi verndun samkvæmt náttúruverndaráætlun 2004–2008, önnur eru enn í undirbúningi.

Þetta segir manni að geta þeirra stofnana sem að málum koma er í raun miklu meiri en þeirra sem taka við til að fylgja eftir þeim verkefnum sem við ákveðum á vettvangi þingsins. Þetta veltir þá upp þeirri spurningu hvort forgangsröðun verkefna er í samræmi við fjárhagslega getu okkar. Skipulagsstofnun hefur til að mynda, væntanlega í samræmi þetta miklu minni umsvif í öllum framkvæmdum á þessu ári en þó dregur ekkert úr starfsmannafjölda t.d. hjá þeirri stofnun.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé tímabært að skoða það að úthýsa verkefnum hjá slíkum stofnunum þannig að aðlaga megi þær meira að sveiflum í samfélaginu og einnig hvort við þurfum ekki að forgangsraða fjármagni þegar kemur að því að fylgja eftir þeim áætlunum sem við ákveðum hér á sviði náttúruverndar í stað þess að hafa stofnanirnar (Forseti hringir.) í raun svo miklu sterkari en (Forseti hringir.) það kerfi sem tekur við til að fylgja verkefnunum eftir.