136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en fyrst hv. þm. Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, tekur þátt í henni finnst mér rétt að spyrja hann hvort honum sem forseta Alþingis finnist fara vel á því að stjórnarskrárbreytingar séu ræddar án þess að nokkur ráðherra úr ríkisstjórninni sé viðstaddur, án þess að tveir fyrstu flutningsmenn málsins, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, séu viðstaddir og hvort hann telji að með þeim hætti sé rétt að umræður standi um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.