136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er auðvitað á ferðinni mjög alvarleg sýndarmennska af hálfu sjálfstæðismanna, talandi um að menn séu ekki í þinginu og vanti hér ráðherra. Ég ætla hvorki vera málsvari hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra, en ég hef oft og tíðum flutt mál í þinginu, sérstaklega mál sem tilheyra sjávarútvegi (Gripið fram í.) sem fóru svo til sjávarútvegsnefndar, og þar hefur skort mikið á að sjálfstæðismenn létu sjá sig eða tækju þátt í umræðunni. Ég veit því ekki hvaða sýndarmennska þetta er nú en auðvitað eiga ráðherrar að sjá sóma sinn í að vera á vettvangi og taka þátt í umræðum og það eiga líka þingmenn sem eru í nefndum að gera, þegar mál sem tilheyra þeim nefndum og hafa farið í gegnum þær eru til umræðu.

Í guðanna bænum hættum þessum fíflagangi og reynum að taka okkur saman í andlitinu og láta þingið fúnkera.