136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að þessi krafa okkar sjálfstæðismanna sé mjög eðlileg. Í ljósi orða hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, sem er orðinn talsmaður ríkisstjórnarinnar, má segja fullkominn varðhundur fyrir hana, er þetta eðlileg krafa. Við ræðum hér á eftir um grundvallarplagg og samkomulag flokkanna í gær var að tveir tímar yrðu teknir — (GMJ: Líttu í eigin barm.) já, ég skal líta í eigin barm. Ég hef margoft verið kölluð út að nóttu til sem menntamálaráðherra til að ræða ýmis málefni sem að mínu mati eru ekki eins merkileg og stjórnarskrá Íslands. Það er fullkomlega eðlilegt að þegar þingmenn kalla eftir ráðherra í salinn, ekki síst 1. flutningsmanni frumvarps, að hann komi þá strax til þingsins. Það gerði ég alltaf og út af mun minni málum en því sem við ræðum í dag og við setjum þetta ekki síst fram út af virðingu við þetta grundvallarplagg okkar Íslendinga.