136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ein afleiðing efnahagshrunsins á Íslandi hefur birst mjög skýrt á undanförnum vikum og mánuðum, krafan um lýðræði. Ég held að það sé vegna þess að á sinn hátt upplifir almenningur í landinu að lýðræðið hafi brugðist eða a.m.k. ekki virkað eins og skyldi á undanförnum árum. Ráðandi öfl í stjórnmálum, valdaflokkar og forustumenn hafa brugðist þjóðinni. Eftirlits- og stjórnsýslustofnanir brugðust þjóðinni. Forustumenn í bankamálum og margir forustumenn í viðskiptalífi brugðust þjóðinni. Fjölmiðlar brugðust þjóðinni, sinntu ekki aðhalds-, eftirlits- og gagnrýnishlutverki sínu. Þjóðin er grátt leikin.

Hér er á ferðinni hluti af þeim lýðræðisumbótum sem eru tilraun til að ná aftur sáttum í íslensku samfélagi. Það er frumvarp um það að kjósendur í kosningum til Alþingis geti haft meiri áhrif, beinni áhrif á þá einstaklinga sem þar veljast til trúnaðarstarfa um leið og þeir kjósa stefnur flokka. Þetta frumvarp um breytingar á stjórnarskipun gengur í sömu átt.

Kosningar nú ber brátt að. Þær eru liður í því að gera málin upp og leggja grunn að nýrri endurreisn og uppbyggingu í landinu, ekki síst með því að styrkja lýðræðið í sessi. Sjálfstæðisflokkurinn talar hér eins og hann hafi ekki búið á Íslandi undanfarin ár, hann talar eins og hann lifi í öðrum heimi, eins og hann viti ekki hvernig hann skilur þjóðfélagið eftir, menn hafi hér allan heimsins tíma og það séu hér algjörlega venjulegar aðstæður til að takast á við hlutina. Það er ekki þannig.

Atriðin sem er að finna í þessu frumvarpi eru skýr. Þetta eru skýrar, fáar efnisbreytingar, þrjár efnisbreytingar á núverandi ákvæðum stjórnarskrárinnar og eitt nýmæli. Þau þrjú atriði sem hér er lagt til að breyta í stjórnarskránni eru öll þaulrædd og gamalkunnug, þau voru meira og minna öll fullunnin í stjórnarskrárnefnd sem starfaði á síðasta kjörtímabili þannig að það er ekki eins og að menn séu að koma að þessu algjörlega nýju. Það á ekki heldur við um Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar þáverandi stjórnarskrárnefnd, undir traustri forustu Jóns Kristjánssonar, lauk störfum bauðst hún til að halda áfram. Það var eindreginn vilji og ásetningur þeirra manna sem þar störfuðu að þráðurinn slitnaði ekki vegna þess að nefndin var búin að vinna mikið og metnaðarfullt starf með sérfræðinganefnd á bak við sig og menn skynjuðu að menn voru mjög nálægt því að ná landi í heild sinni með endurskoðun á grundvallarköflum stjórnarskrárinnar og ýmsum þarflegum nýmælum inn í hana. Þess vegna var það sem ég spurði fyrrverandi forsætisráðherra strax í byrjun þess kjörtímabils, haustið 2007 ef minni mitt svíkur ekki, hvort þáverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hygðist ekki tryggja að þetta starf héldi órofið áfram. Hverju svaraði þá hæstv. þáverandi forsætisráðherra? Nei, hann sagði að menn væru yfirleitt ekki að breyta stjórnarskránni fyrr en undir lok kjörtímabils, þess vegna lægi ekki mikið á, og hann hygðist með tíð og tíma kannski skipa nýja stjórnarskrárnefnd sem gæti haft eitthvað tilbúið þegar drægi að alþingiskosningum 2011. Er þetta ekki rétt með farið? Ég hygg það.

Hvernig stóð formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Geir H. Haarde, að lokum stjórnarskrárstarfsins í lok kjörtímabilsins 2007? Þá var sérstaklega tekist á um eitt atriði, sameign á þjóðarauðlindum, og það var gríðarlegur þrýstingur á að fá það þá inn í stjórnarskrána. Sjálfstæðisflokkurinn þvældist fyrir því ákvæði eins og hann gerir nú. Hvernig endaði það? Það endaði þannig í því mikla samráði að formenn þáverandi stjórnarflokka fluttu frumvarpið einir, hv. þm. Geir H. Haarde og hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra og maður utan þings, Jón Sigurðsson. Þetta held ég að sé svona.

Ég verð að segja að hv. þm. Geir H. Haarde hittir svolítið sjálfan sig fyrir þegar hann fer hér hörðum orðum um og gagnrýnir allt mögulegt í tengslum við þetta frumvarp en lítur ekki í eigin barm. Að sjálfsögðu er alltaf æskilegt að menn nái sem víðtækastri samstöðu um grundvallarmál af þessu tagi og að sjálfsögðu er gott að hafa til þess meiri tíma en minni, en svona hefur þetta mjög oft gerst, þegar dregur að reglubundnum alþingiskosningum eða þegar þær koma óvænt upp á skora menn færin til þess að fara samhliða þeim kosningum í gegn með þær breytingar á stjórnarskrá sem áhugi er á að gera. Þetta er sagan.

Hver eru svo ákvæðin hér? Þau eru í 1. gr. um sameign á náttúruauðlindum. Efast einhver um að þjóðin vilji það? Eigum við að gera skoðanakönnun um það hvort þjóðin vill ekki ákvæði inn í stjórnarskrá um sameign á náttúruauðlindum sem slær það í gadda án þess að raska að öðru leyti þeirri réttarskipan sem er í landinu? Halda menn ekki að þjóðin telji að það eigi að taka upp meginreglur umhverfisréttarins um sjálfbæra þróun og annað það sem hér er? Jú, ég held það.

Í 2. gr. er löngu tímabært ákvæði um það að þjóðin taki afstöðu til stjórnarskrárbreytinga í sjálfstæðri kosningu á sjálfstæðum atkvæðaseðli en að við notum ekki þetta fráleita fyrirkomulag sem við höfum setið uppi með að það eigi að heita svo að stjórnarskrárbreyting sé afgreidd með því að kjósa flokka í alþingiskosningum. Það er fráleitt fyrirkomulag. Þá er aldrei kosið hreint já eða nei um stjórnarskrárbreytinguna sjálfa. Um þetta var samstaða í síðustu stjórnarskrárnefnd og það stóð lengi til að flytja þetta ákvæði sjálfstætt og gera það að lögum í síðustu kosningum.

Í þriðja lagi er krafa hér um beint lýðræði, að innleiddir verði möguleikar þjóðarinnar sjálfrar til að taka til sín stór og mikilvæg mál. Er ástæða til að ætla annað en að þjóðin vilji það? Eigum við að fá sjálfstæða skoðanakönnun á því hvort þjóðin telji það ekki framfaraspor að hún eigi þann möguleika að kalla sjálf til sín stór og afdrifarík mál eða knýja fram kosningar um þau? Ég hef ekki áhyggjur af því.

Þá er eftir 4. efnisgreinin, um stjórnlagaþingið. Það er vissulega nýmæli. Sá mikli áhugi á því helgast af þeim aðstæðum sem við Íslendingar höfum lent í, þeim ósköpum sem yfir okkur hafa gengið. Ég er ekki í neinum vafa um að þjóðinni sjálfri finnst mjög spennandi kostur að hún taki það í sínar hendur með þessum hætti að setja sér nýja stjórnarskrá. Þetta er vissulega fyrirbæri sem aðallega er þekkt frá fyrri öldum þegar menn lögðu í framhaldi af einhverjum miklum þjóðfélagssviptingum nýjan grunn að nýrri framtíð, t.d. með því að menn höfðu hrundið af sér einvaldskonungum eða stofnað ný lýðræði eins og í Bandaríkjunum eða losnað við kynþáttaaðskilnaðarstefnu eins og í Suður-Afríku eða eitthvað af þeim toga. Má ekki segja að íslenska þjóðin sé að mörgu leyti á þeim tímamótum að hún verði sjálf að axla ábyrgð á nýju upphafi sínu? Þeir sem áttu að fara fyrir henni, hv. þm. Sturla Böðvarsson, brugðust henni, og enginn einn aðili hefur brugðist þessari þjóð meira en Sjálfstæðisflokkurinn á síðustu 18 árum.

Treysta menn ekki þjóðinni? Telja menn ekki að þetta vald eigi að vera hjá henni? Ja, spurt er. (Gripið fram í.) Ég treysti íslensku þjóðinni til þess. Hvert á að vera mikilvægasta ákvæðið í nýju stjórnarskránni okkar? Það á að vera ákvæðið um að allt vald spretti frá þjóðinni í lýðræðisríki. Það á að vera hornsteinn hinnar nýju íslensku stjórnarskrár að aldrei leiki neinn vafi á því hvaðan valdið sprettur. Frá þjóðinni. Það kemur ekki innan úr brjóstum stjórnmálamannanna sjálfra, það ættuð þið að hafa í huga, (Forseti hringir.) hv. sjálfstæðismenn.