136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur leitt íslensku þjóðina fram á brún efnahagslegs hengiflugs. Það stefnir í fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila. En afleiðing þessa hruns er ekki aðeins efnahagsleg. Með hruninu hefur myndast gjá á milli þings og þjóðar, gjá sem ekki verður brúuð nema með breytingu á stjórnarskipulagi landsins. Þjóðin treystir ekki lengur Alþingi og án gagnkvæms trausts verða allar okkar aðgerðir og allar okkar áætlanir um uppbyggingu landsins einskis verðar. Þetta sáum við framsóknarmenn snemma og við brugðumst við.

Framsóknarmenn felldu fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og studdu minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til valda að uppfylltum þremur skilyrðum. Þessi þrjú skilyrði eru grundvöllur þess að endurheimta traust þjóðarinnar og gera okkur kleift að byggja til framtíðar. Þessi skilyrði voru m.a. raunhæfar tillögur til varnar heimilum og fyrirtækjum, og þar höfum við framsóknarmenn aftur tekið forustuna með metnaðarfullum tillögum að fjölþættum aðgerðum sem munu skjóta stoðum undir atvinnulífið og gefa heimilum og fyrirtækjum tíma til að endurskipuleggja fjárhag sinn og fleyta sér yfir erfiðasta hjallann í því ástandi sem nú ríkir. Þá kröfðumst við kosninga í vor. Frá síðustu kosningum hefur íslenskt samfélag umturnast og allar forsendur eru breyttar. Því teljum við mikilvægt að Alþingi fái endurnýjað umboð frá þjóðinni til að takast á við það mikla verkefni sem endurreisn samfélagsins er. Og síðast en ekki síst gerðum við kröfu um stjórnlagaþing.

Ein orsaka hins efnahagslega hruns er að óhófleg völd söfnuðust á hendur fárra. Örfáir fjárglæframenn höfðu í krafti auðs í fullu tré við ríkisvaldið og nýttu sér til hins ýtrasta blinda trú Sjálfstæðisflokksins á sjálfsstjórn markaðarins. Þannig voru eftirlitsstofnanir kæfðar og beinu og óbeinu valdi beitt til að tryggja hlutleysi þeirra í óheftri frjálshyggjunni. Til að tryggja valddreifingu, treysta völd Alþingis og mótvægi þess við ráðherraræði og vald fjármagnsins þurfum við að gera upp við þessa fortíð okkar. Sú sátt sem við verðum að ná verður að horfa til framtíðar. Til þess þurfum við nýtt þjóðskipulag og því náum við aðeins fram með stjórnlagaþingi. Reynslan sýnir okkur að Alþingi er ekki fært um að fara í grundvallarbreytingar á stjórnarskipan okkar, enda væri hreinlega í hæsta máta óeðlilegt að þingmenn settust niður til að véla um eigin völd og áhrif. Við sáum hvert það leiddi okkur í eftirlaunafarsanum öllum.

Í 65 ár hefur nefnilega staðið til að endurskoða stjórnarskrána, sérstaklega þá þætti sem varða stjórnarskipun landsins — og hver hefur árangurinn orðið? Enginn.

Þegar ákveðið var að slíta sambandinu við Danmörku var skipuð sérstök stjórnarskrárnefnd. Hún lagði til að núverandi stjórnarskrá yrði að stórum hluta samhljóða stjórnarskránni frá 1920, fyrir utan að felld voru út ákvæði um konung og sett í staðinn inn ákvæði um forseta. Einnig voru gerðar minni háttar breytingar hér og þar, m.a. breytingar sem sneru að takmörkun á synjunarvaldi forseta. Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem við sáum við afgreiðslu stjórnarskrárinnar árið 1944 var að hún náði aðeins til þessara afmörkuðu þátta. Eftir að stjórnarskráin var samþykkt starfaði stjórnarskrárnefndin áfram að endurskoðun hennar og þegar starfsemin lognaðist út af árið 1947 var ný nefnd skipuð. Sú nefnd skilaði heldur ekki neinu áliti. Í gegnum tíðina hafa þingmenn borið upp bæði þingsályktunartillögur og frumvörp með einstaka breytingum og heildarendurskoðun á stjórnarskránni en innan við 10% þeirra hafa orðið að veruleika. Einkum var þar um að ræða breytingar á kafla um þingkosningar og störf Alþingis, sem virðist vera sérstakt áhugamál okkar þingmanna, auk þess sem breytingar hafa verið gerðar á mannréttindakaflanum en um þær breytingar var almenn sátt. Eini kaflinn sem hefur verið látinn ósnertur er I. kafli um stjórnarskipun. Það hefur nefnilega einfaldlega aldrei náðst sátt á Alþingi Íslendinga um að fara í þá viðamiklu vinnu sem snertir breytingu á stjórnarskipun landsins og því teljum við nauðsynlegt að taka þetta úr höndum Alþingis og færa í hendur þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Þau þrjú skilyrði sem við framsóknarmenn settum fyrir stuðningi við núverandi stjórn eru lykillinn að því að hægt verði að reisa íslenskt þjóðlíf úr rústum í fullri sátt. Þessi þrjú atriði þurfa að fara saman svo aftur komist á traust milli þings og þjóðar og hægt verði að horfa til framtíðar. Þjóðin þarf að koma að þessu ferli og það gerir hún aðeins með kosningum og stjórnlagaþingi. Það er því sorglegt að hafa þurft að horfa upp á Morfís-æfingar sjálfstæðismanna síðustu daga. Þeir náðu nýjum lægðum í lágkúrunni í gærkvöldi þegar þeir fóru hver á fætur öðrum í andsvör við eigin flokksmenn til að reyna að koma í veg fyrir að þjóðin gæti komið að mótun hins nýja Íslands með kosningum og stjórnlagaþingi. Um leið eru þeir að draga lappirnar í mikilvægum málum sem snerta efnahag heimilanna í landinu.

Við framsóknarmenn erum að vísu ekki fullkomlega sáttir við það frumvarp sem nú liggur fyrir um breytingar á stjórnarskránni. Við töldum óþarfa að fara í frekari breytingar á stjórnarskránni á þessu þingi en þær einar sem snúa að stjórnlagaþingi. Það er einmitt hlutverk þess þings að endurskoða stjórnarskrána í heild. Við mátum það hins vegar þannig að mikilvægara væri að ná sátt um að koma málinu í gegn á þessu þingi en að skattyrðast um formsatriði við stjórnarflokkana. Þannig er gert ráð fyrir ákvæði um að sameiginlegar auðlindir verði ávallt í þjóðareign. Nú, þegar íslenska þjóðin er bundin á klafa erlendra fjármagnseigenda sem ganga hart fram í óraunhæfum kröfum um að þjóðin taki á sig skuldbindingar nokkurra veruleikafirrtra einstaklinga, er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að tryggja að auðlindir okkar sem munu standa undir framtíð okkar og afkomenda okkar falli ekki í þeirra hendur. Það er í raun með ólíkindum að valdhroki sjálfstæðismanna skuli vera slíkur að þeir þori ekki að fela þjóðinni það vald að móta sína eigin framtíð.

Það er ekki nóg með að blind trú þeirra á frjálshyggjuna hafi lagt íslenskt samfélag í rúst heldur ætla þeir líka að koma í veg fyrir að hægt verði að þrífa upp eftir þá.