136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:04]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í 1. gr. er mjög góð viðbót og les ég hana hér, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist ný grein, 79. gr., svohljóðandi:

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.“

Þetta er mjög gott og raunverulega þarft innlegg í stjórnarskrána. Í 3. gr. er atriði sem ég er mjög sáttur við og tel mjög til bóta, í lýðræðisátt og til þess fallið að verja þjóðina fyrir misvitrum stjórnmálamönnum sem hafa oft komist til valda á Íslandi og kannski ráðið ferðinni allt of lengi oft og tíðum. Í 3. gr. stendur, með leyfi forseta:

„80. gr. laganna orðast svo:

Alþingi skal láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni sem varðar almannahag ef 15 af hundraði kjósenda krefjast þess. Atkvæðagreiðslan skal fara fram innan þriggja mánaða frá því að staðfest krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir.“

Þetta er mjög þarft og við gætum leyst ýmis vandamál sem við búum við í dag ef þetta væri þegar í stjórnarskránni og við værum að nota það. Sama á við um stjórnlagaþing að því leyti að í 4. gr. í frumvarpinu segir svo:

„Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:

Forseti Íslands skal boða til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“

Ég held að stjórnlagaþing sé mjög gott og þarft fyrir okkur, íslensku þjóðina, á þeim tímapunkti sem við stöndum frammi fyrir núna. Við eigum að nýta okkur það að stokka upp hlutina og koma meira lýðræði inn í stjórnarskrá okkar og samfélag.

Við höfum horft upp á það síðustu daga að hér hefur verið mikið málþóf en það eru ekki bara sjálfstæðismenn sem hafa haldið uppi málþófi, það hafa líka aðrir gert þegar þeir eru í minni hluta. Fjórflokkurinn hefur verið með málþóf ef hann er ekki í ríkisstjórn. Það hefur Frjálslyndi flokkurinn aftur á móti ekki gert og ekki tekið þátt í þannig stjórnarandstöðu. Kjósendur á Íslandi eiga að brjóta upp fjórflokkakerfið með því að styðja Frjálslynda flokkinn. (Forseti hringir.) Flokkar eiga að vera fyrir fólk en ekki öfugt.