136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:27]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í síðari ræðu minni að víkja aðeins nánar að hugmyndinni um stjórnlagaþing sem er að finna í 4. gr. frumvarpsins og hnykkja á þeim atriðum sem er að finna í fyrri þremur greinunum.

Ég hef áður tekið til máls um stjórnlagaþingshugmyndina. Það var þegar við höfðum til umfjöllunar þingmál Framsóknarflokksins um hið sama. Þá varð manni ljóst af fréttatilkynningum frá ríkisstjórninni að hún var á þeim tíma sem Framsóknarflokkurinn var með sitt mál til umfjöllunar, að vinna að sínu eigin stjórnlagaþingsmáli.

Í þessu frumvarpi er komin fram töluvert breytt hugmynd að stjórnlagaþingi. Við hljótum að gera við það athugasemdir að ekki skuli vera gerð nein tilraun í þingmálinu til að slá á hugsanlegan kostnað við að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Ég tel að það hljóti að vera eitt meginverkefni nefndarinnar sem fær málið til umfjöllunar að kalla eftir upplýsingum um þann kostnað sem fyrirséður er við stjórnlagaþingið.

Hugmyndin gengur út á það að stjórnlagaþing verði að störfum í tvö ár með 41 þingmanni. Ég tek mark á þeim áætlunum sem menn hafa teflt fram í þessu efni og hafa m.a. komið fram hjá hv. þm. Geir H. Haarde um að augljóst sé að kostnaðurinn mun ekki verða undir 1 milljarði kr. til að sinna þessu hlutverki sem við getum og höfum ávallt gert í gegnum tíðina.

Ég vil líka vekja athygli á því að engin sérstök ástæða er til að láta störf stjórnarskrárnefndarinnar renna út í sandinn og nýta ekki þá miklu vinnu sem þar hefur verið unnin. Grunnur að tillögum er kominn fram. Í skýrslu nefndarinnar, eins konar áfangaskýrslu sem kom út á árinu 2007, er að finna sjónarmið úr öllum þjóðfélagshópum. Þar er að mínu áliti að finna grunn að áframhaldandi starfi til að gera tillögur að breytingum á stjórnarskránni og þá þeim veigameiri breytingum sem ég held að við séum öll að horfa til en ekki endilega þeim sem hér er teflt fram.

En um stjórnlagaþingið aðeins nánar. Það eru tiltölulega einfaldar athugasemdir sem við sjálfstæðismenn erum flestir að koma á framfæri. Í fyrsta lagi: Það er innbyrðis mótsögn fólgin í því að tefla fram hugmyndinni með þeim skýringum að það sé svo brýn nauðsyn að aðrir komi að stjórnlagagerðinni en Alþingi en á sama tíma tefla fram hugmyndum um breytingar á stjórnarskránni. Hver sér ekki þversögnina í slíkum málflutningi?

Í öðru lagi hlýtur maður að gera athugasemdir við að hugmyndinni sé teflt fram eins og ég vék að áðan án þess að kostnaðurinn sé tekinn saman en hann verður augljóslega mjög mikill.

Í þriðja lagi vil ég nefna að mér finnst við vera að upplifa tíma núna þar sem sótt er mjög að þinginu. Mikið vantraust hefur grafið um sig í samfélaginu, ekki bara gagnvart þinginu og stjórnmálalífinu almennt heldur fjölmörgum öðrum stofnunum hins opinbera. Ef menn halda að þeir séu að reyna með þessu að treysta stoðir þingsins til þeirra starfa sem hér eru unnin, að menn séu með einhverjum hætti með stjórnlagaþingshugmyndinni að auka á virðingu þingsins, þá eru menn á fullkomnum villigötum. Vegna þess að í mínum huga grefur hugmyndin einmitt undan trausti þjóðarinnar á þeim störfum sem hér eru unnin. Hún gefur til kynna að þingið sé ekki því starfi vaxið að sinna stjórnlagagerðinni. Mér finnst það mjög alvarlegt, af því að það er skýrt í stjórnarskrá okkar í dag að þingið er valdamesta stofnunin og hlýtur að vera til þess bært að taka þetta verkefni að sér.

Hver eru annars rökin fyrir því að þeir sem verða kosnir fulltrúakosningu, hugmyndin er að 41 einstaklingur verði kjörinn til þess, séu betur til þess fallnir en þeir 63 sem hér eru og sinna löggjöfinni að öðru leyti? Það eru engin rök fyrir því. Einu haldbæru rökin, eða svona sýnilegu rökin ætti ég kannski frekar að segja, eru þau að mönnum þykir sem starfið, þ.e. endurskoðun á stjórnarskránni, hafi farið ofan í einhverjar pólitískar skotgrafir og að fyrirkomulagið við breytingar á stjórnarskránni sé orðið úrelt eða of þunglamalegt. Þá skulum við bara ræða þann vanda sérstaklega. Við skulum þá spyrja okkur að því hvort eitthvað sé til í þessu. Við skulum þá fara beint í 79. gr. og velta fyrir okkur hvort við ættum ef til vill að láta duga að breyta henni.

Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vék að áðan í ræðu sinni voru einmitt komnar fram hugmyndir frá stjórnarskrárnefndinni um þetta. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við vorum að nálgast kosningar þegar stjórnarskrárnefndin tefldi hugmyndinni fram og þeir sem þar sátu vissu að ef þessu atriði yrði ekki breytt yrði stjórnarskránni ekki breytt fyrr en eftir um það bil fjögur ár. Þannig sáum við þetta í stjórnarskrárnefndinni árið 2007.

En svo gerast þeir óvæntu atburðir að við boðum til kosninga á þessu kjörtímabili. Hvað gerist þá einmitt í aðdraganda kosninganna? Jú, skýtur ekki upp kollinum stjórnarskrárfrumvarp. Af hverju? Af nákvæmlega sömu ástæðu og við tefldum fram þessari breytingartillögu í stjórnarskrárnefndinni, af þeirri ástæðu að menn óttast að verði breytingar ekki gerðar núna muni ekki vera hægt að ræða málið að nýju fyrr en eftir um það bil fjögur ár.

Þetta eru því nákvæmlega sambærilegar aðstæður og þær kalla á sambærileg viðbrögð. Flokkarnir voru þá sammála um að breyta bara 79. gr. og við eigum ekki að láta okkur detta það í hug að fara út í jafnveigamiklar breytingar á öðrum greinum stjórnarskrárinnar eins og lagt er upp með í þessu máli. Stjórnlagaþingshugmyndin er því slæm fyrir margra hluta sakir. Ég held að sýnu alvarlegast sé hvernig hugmyndin grefur undan stöðu og virðingu Alþingis. Það er mín skoðun.

Ég vil jafnframt taka fram svo það sé alveg skýrt að ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi stjórnarskrána. Við sjálfstæðismenn erum ekki í umræðum um frumvarpið að gera því skóna að verið sé að ræða um breytingar að óþörfu. Nei. Þvert á móti. Við tókum þátt í vinnu stjórnarskrárnefndarinnar á þeirri forsendu að ráðast þyrfti í umfangsmikla endurskoðun stjórnarskrárinnar, skýra einstaka kafla og laga innbyrðis samhengi. Sérstaklega þarf að ræða um stöðu forsetans og ég tek eftir því að á þinginu virðist vera að myndast sátt meðal allra flokka um að það þurfi og nokkuð brýnt sé að skilgreina nánar stöðu og hlutverk forsetans. Það er því alveg skýrt af okkar hálfu að verkið er fast.

En það á ekki að hverfa frá því verklagi að unnið sé í góðri sátt milli flokkanna. Við eigum heldur ekki að skjóta málinu frá þinginu inn á einhvern nýjan vettvang heldur þvert á móti leggja áherslu á að við getum gert þetta og eigum að gera þetta. Við erum hérna til þess að gera þetta. Við erum hérna til þess að laga stjórnarskrána og betrumbæta hana þegar þörf krefur. Við höfum margoft gert það, mun oftar hefur þótt vera þörf fyrir endurskoðun á stjórnarskránni en í Danmörku. Við höfum náð fram miklu oftar breytingum á stjórnarskránni en Danir hafa verið að gera undanfarna áratugi.

Ég sé að ræðutími minn er að renna út. Ég tel mig í mínum tveimur ræðum í umræðunni hafa komið að flestum sjónarmiðum. Þetta mál þarf að (Forseti hringir.) fara til mjög nákvæmrar skoðunar í nefnd.