136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara.

Með frumvarpinu er lagt til að heimildir embættisins til að kalla eftir upplýsingum og gögnum verði gerðar skýrar og ótvíræðar. Er breytingunum ætlað að efla og styrkja embættið og gera því enn frekar kleift að upplýsa, rannsaka og eftir atvikum gefa út ákærur í málum sem falla undir lög um embætti sérstaks saksóknara.

Með frumvarpinu er lagt til að afmarkaðar verði með skýrum hætti í lögum þær heimildir sem hinn sérstaki saksóknari hefur til öflunar upplýsinga og gagna gagnvart þeim stofnunum og aðilum sem vísað er til í ákvæðinu, þ.e. Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu, skattrannsóknarstjóra ríkisins og öðrum eftirlits- og réttarvörslustofnunum, skilanefndum og öðrum sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins. Er þetta nauðsynlegt í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru og þeirrar staðreyndar að afar mikilvægt er að brugðist verði eins skjótt og hægt er við rannsókn þessara mála. Með gögnum er t.d. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir og samninga og gæti því fleira fallið þar undir en það sem beinlínis er talið upp í ákvæðinu.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að breyting verði á verksviði hins sérstaka saksóknara. Því munu t.d. mál vegna brota á lögum um fjármálafyrirtæki áfram verða rannsökuð hjá Fjármálaeftirlitinu og verða ekki rannsökuð af sérstökum saksóknara nema Fjármálaeftirlitið hafi vísað máli þangað. Hins vegar mun það geta flýtt fyrir rannsókn þeirra mála sem undir sérstakan saksóknara heyra ef hann fær sem fyrst aðgang að öllum þeim skýrslum og gögnum sem til staðar eru og varða það ástand á fjármálamarkaði sem skapaðist í kjölfar þeirra atburða er leiddu til setningar neyðarlaganna svokölluðu.

Þá er jafnframt lagt til að hinn sérstaki saksóknari geti einnig krafið þau fjármálafyrirtæki sem stofnuð voru um hluta af rekstri gömlu bankanna á grundvelli neyðarlaganna um upplýsingar og gögn. Með ákvæðinu eru tekin af tvímæli um skyldu nýju bankanna þriggja sem stofnaðir voru um hluta af rekstri Glitnis hf., Kaupþings hf. og Landsbankans hf. til að afhenda hinum sérstaka saksóknara gögn. Er slíkt nauðsynlegt í ljósi þess að gera má ráð fyrir því að nauðsynlegar upplýsingar eða gögn sem hinn sérstaki saksóknari telur að geti nýst embættinu í starfi sínu séu vistuð hjá þessum stofnunum. Skylt er fyrrgreindum aðilum að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins. Verður að telja að lög um embætti sérstaks saksóknara nái ekki þeim tilgangi sínum að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í tengslum við hið svokallaða bankahrun ef reglur um þagnarskyldu standa því í vegi að hann fái aðgang að upplýsingum eða gögnum sem hann telur geta gagnast embættinu við störf sín.

Þá er að lokum mælt fyrir um að fái skilanefnd, aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, umsjónarmaður með nauðasamningi eða skiptastjóri fjármálafyrirtækis vitneskju í starfi sínu um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um að fjármálafyrirtæki eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skal hann beina tilkynningu um slíkt til hins sérstaka saksóknara. Byggir þessi skylda á sambærilegu ákvæði í 84. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.