136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég get sagt fyrir hönd framsóknarmanna að við erum jákvæð gagnvart því frumvarpi sem hér er verið að færa fram. Það er verið að gefa sérstökum saksóknara betri heimildir til að rannsaka bankahrunið og saknæmt athæfi í kringum það. Það þarf ekkert að fara djúpt ofan í hvert ákvæði í því sambandi, það mun allsherjarnefnd gera þegar hún fær þetta mál til umfjöllunar. Ég tek undir að það er ekki gott að bera fyrir sig bankaleynd í þessu máli. Ég held að menn hljóti að sjá að það er mjög mikilvægt fyrir embætti sérstaks saksóknara að hafa mjög ríkar heimildir til þess að rannsaka gögn og þagnarskyldan víkur að því leytinu. Það eru algerlega tekin af öll tvímæli um að það sé skylda nýju bankanna þriggja sem voru stofnaðir að hluta um rekstur Glitnis, Kaupþings og Landsbankans að afhenda hinum nýja sérstaka saksóknara gögn.

Varðandi embættið í heild sinni studdi sú er hér stendur að það yrði sett á stofn sérstakt embætti saksóknara, það yrði alveg sérstakt embætti en ekki fellt undir efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Við studdum það á grunni þess að hér er um svo stórt og mikið mál að ræða að rétt væri að hafa sérstakt embætti um það. Það voru líka sjónarmið að ekki væri gott ef kæmu upp áhöld um vanhæfi á fyrstu stigum mála varðandi ríkislögreglustjóraembættið. Það væri betra að koma sér fram hjá þeim hugsanlega möguleika strax með því að hafa þetta sjálfstætt embætti sérstaks saksóknara.

Fyrir stuttu var viðtal í Morgunblaðinu við hinn sérstaka saksóknara. Ég verð að segja að ég var svolítið hissa á því Morgunblaðsviðtali. Ég fékk á tilfinninguna þegar ég las það að það væri lítið að gera hjá embættinu og ótrúlega fá mál komin til þess. Á forsíðu Morgunblaðsins voru myndir þar sem hinn sérstaki saksóknari sat með flennistórar langar tómar hillur á bak við sig. Vonandi verður sú heimild sem við munum líklega gefa hér, eftir umfjöllun þessa máls, til þess að málin fari að koma þar inn og fari í góða rannsókn.

Mér fannst athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar. Hann upplýsti að þær heimildir sem hér er verið að tala um að veita hafi ekki komist í gegnum þingflokk Samfylkingarinnar. Hér er staddur í salnum hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem getur kannski skýrt hvort þetta sé svona. Það hefði verið ágætt að heyra þau sjónarmið af hverju ekki hafi verið talið rétt að fara með svona heimildir inn í nýja embættið, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason sóttist eftir því til þess að gefa embættinu eðlilega vigt.

Ég tek undir það sem komið hefur fram, og það kom fram í ræðu minni þegar þetta frumvarp var til umfjöllunar á sínum tíma, að þetta embætti mun kosta peninga. Það á kosta peninga því að það er dýrt að rannsaka þessi mál. Það þarf að ráða fleira fólk og alveg ljóst að þegar upp verður staðið verður reikningurinn kannski hærri en maður áætlar í fyrstu. Ég held að við eigum að gera allt sem við getum til að styðja við bakið á þessu embætti.

Ég fagna því líka sem hefur komið fram opinberlega að Joly ætli að vera ráðgjafi ríkisstjórnarinnar varðandi bankahrunið. Það er mjög mikilvægt að fá erlenda aðila að þessum málum. Í þessu litla samfélagi okkar er því miður allt of mikið um hagsmunatengsl og vinatengsl og hópa sem hafa mikið umleikis og gætu farið að varna því að menn rannsaki þessi mál ofan í kjölinn. Ég fagna því að fá starfskrafta hennar að þessu og það eru alveg sömu sjónarmið og gilda um nýjan seðlabankastjóra, ég fagna því að hann kemur hingað um stundarsakir til að aðstoða okkur við að endurreisa fjármálakerfið.