136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki réttur skilningur hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað það. Ég segi það bara sem mína skoðun, vegna þess að það var ég sem að lokum samdi um það við Sjálfstæðisflokkinn, að það hefði getað gengið hraðar fyrir sig.

Að því er varðar málflutning fyrrverandi dómsmálaráðherra þá gaf hann, eins og ég skildi ræðu hans, tvær skýringar í einni og sömu ræðunni á því sem hann kallaði tafir Samfylkingarinnar. Í fyrri parti ræðu sinnar talaði hv. þm. Björn Bjarnason um að það hefði verið fyrrverandi viðskiptaráðherra sem hefði ekki viljað veita þær. Í seinni parti ræðu sinnar talaði hann um að það hefði verið þingflokkur Samfylkingarinnar sem ekki vildi það.

Ég kannast bara ekki við þetta. Hv. þingmaður gæti vafalaust staðfest það, ef eftir því væri óskað, að a.m.k. sá sem hér stendur studdi þetta frumvarp í ríkisstjórninni. Ég minnist þess t.d. að út í frá tjáðu einstakir ráðherrar Samfylkingarinnar sig um það. Ég minnist þess t.d. að fyrrverandi umhverfisráðherra tjáði sig mjög sterklega með þessu frumvarpi.

Ég er sem sagt að segja það að ég þekki ekki þetta sem hv. þm. Björn Bjarnason segir, en hann hefur náttúrlega fullt frelsi til að koma hingað og skýra þetta hér á eftir í eins löngu og djúpu og ítarlegu máli og hann vill. Það er það sem ég hef um málið að segja. Hv. þm. Björn Bjarnason spurði mig ekki eins eða neins um þetta en ég svara spurningu hv. þingmanns af því að henni var til mín beint.